149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:44]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Það er einmitt þetta með tölurnar, 150 eða 161 millj. kr. Því sem er í frumvarpinu ber nefnilega ekki saman við þær upplýsingar sem eru á heimasíðu ráðuneytisins. Ég skil því vel að ráðherra sé eilítið óviss með tölurnar. Við erum það líka þótt þetta séu ekki háar fjárhæðir.

En við erum að ræða önnur fjárlög ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og tíminn er ótrúlega fljótur að líka, hveitibrauðsdagarnir eru á enda. Það þarf að fara að koma með einhverjar aðgerðir, hæstv. ráðherra, ef þetta á ekki að verða verklausasta ríkisstjórn allra tíma. Það þýðir ekki bara að mala og lofa heldur verða aðgerðir að eiga sér stað. Kolefnishlutleysi verður náð með varanlegum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Það er ekki hægt að gera það með neinu öðru, ekki með því að skipa hópa eða sitja fundi. Það er einkabíllinn sem framleiðir helming þess útblásturs sem hér myndast.

Á höfuðborgarsvæðinu búa um 70% landsmanna og að segjast ætla að byggja upp almenningssamgöngur krefst þess að hafist sé handa. Borgarlínan, sem öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu eru sammála um að ráðast í, verður að fara að komast af stað.

Það fjárlagafrumvarp sem við erum beðin um að samþykkja á að gilda allt næsta ár, 2019. Næstu kosningar eru hins vegar 2021 þannig að við höfum innan við þrjú ár. Við verðum að bretta upp ermar. Þegar því fjárlagaári sem við erum að fjalla um lýkur er aðeins eitt ár og svo kemur kosningaár. Almenningssamgöngur verða ekki reistar á einni nóttu. Það er búið að ræða við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og þar eru allir sammála, en það er beðið eftir ráðherra.