149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:46]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég held að segja megi að framkvæmdir á vegakerfinu síðustu mánuðina séu mjög lýsandi fyrir það hversu verkmikil ríkisstjórnin er. Það hefur sjaldan verið eins mikið unnið og á síðustu mánuðum í viðhaldi og við að lagfæra skemmdir og undirbyggja og varðveita verðmæti ríkisins, eins og margir hafa upplifað og orðið fyrir töfum í umferðinni fyrir þær sakir. Það sama gildir um aðgerðir okkar í loftslagsmálum. Þær voru kynntar í síðustu viku. Þær eru til næstu 12 ára, til 2030, þar sem við ætlum að ná ákveðnum markmiðum. Þær aðgerðir eru það skýrar og vel fram settar að þetta verður hægt.

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa líka verið með plön sem ná til 2030. Þau ætluðu ekki að byggja allar þær aðreinar og gera allar þær breytingar sem þyrfti að gera á vegakerfinu á einu ári. Það mun taka allan þennan tíma. Samtalið milli ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu var aldrei klárað á síðasta ári fyrir sveitarstjórnarkosningar. En það er hægt að gera núna og við munum stefna að því, vegna þess að við deilum þeirri sameiginlegu sýn, bæði sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og ríkisstjórnin og að ég held stærstur hluta þingheims, að mikilvægt sé að efla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu þannig að stór hluti íbúanna getur nýtt sér þær í mun meira mæli en hann hefur gert. En til þess þarf betra kerfi en við höfum og við þurfum líka að horfa á möguleikana annars staðar á landinu.

Orkuskiptin í samgöngum, þar sem við förum yfir á nýorkubíla, að stærstum hluta rafmagnsbíla, munu hjálpa okkur alveg gríðarlega til að ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur fyrir árið 2030. Það áhugaverða í því er að þetta er ekki eingöngu skuldbinding, einhvern ógn og áskorun sem við þurfum að taka á okkur. Þetta er líka efnahagslega jákvætt, bæði fyrir samfélagið, við notum innlenda orku, og fyrir fólkið í landinu sem mun eignast þessa bíla sem eru ódýrari í rekstri en núverandi bílar.