149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er ekki skýrari en svo að við vitum ekki hvað aðgerðirnar kosta og vitum ekki hve miklum árangri hver aðgerð skilar. Hún er alveg eins og flest annað í þessu fjárlagafrumvarpi; einn stór pakki af „við ætlum að gera svona þetta, láta þau fá 6,8 milljarða fyrir það og við skulum gera hvað við getum“. Það er vandamálið í hnotskurn, bæði í fjárlögum og fjármálaáætlun og í aðgerðaáætluninni.

Mig langar til þess að fjalla aðeins um samgönguáætlunina sem er væntanleg. Fjárlögin munu hafa áhrif á þá samgönguáætlun. Við samþykkjum peninga sem eiga að fara í þá samgönguáætlun sem ekki er enn komin fram. Þá er byrjað á röngum enda. Við eigum að taka umræðuna um samgönguáætlun á réttum stað, þ.e. með fjármálaáætluninni þar sem við skilgreinum rammann um þessar áætlanir sem eiga að kosta svona mikla peninga. Núna eigum við væntanlega að fara að samþykkja einhverja samgönguáætlun og bæta þá við fjárlögin eða eitthvað svoleiðis. Maður áttar sig ekki alveg á því í hvaða röð þetta á allt að gerast.

Það eru fleiri atriði í kaflanum um samgöngumál sem mig langar til þess að spyrja ráðherra um. Á bls. 271 er sagt að unnið sé að framkvæmdum við Dýrafjarðargöng. Minn skilningur var sá að þetta væri fullfjármagnað verkefni. Ég skil því ekki af hverju bundin útgjöld eru þar í mínus. Það er væntanlega ekki hluti af útgjaldasvigrúminu. Sama á við um nýjan aðflutningsbúnað á Akureyrarflugvelli. Það var fullfjármagnað á síðustu fjárlögum eftir því sem ég best veit. Ég spyr: Hvað var gert við peninginn í fyrra ef gera á það sama núna, eyða í sama verkefni?