149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:50]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Nokkrar spurningar. Takk fyrir þær, þær eru fínar. Varðandi loftslagsmálin og kostnað við hverja aðgerð hefur komið fram að verið er að vinna það áfram. Þetta var fyrsti áfangi í kynningu á því sem við erum að fara að gera og er mikilvægt að koma því á framfæri í upphafi þings hver stefna ríkisstjórnarinnar er, hvernig aðgerðapakkinn lítur út. Síðan mun það skýrast koll af kolli og er komið mismunandi langt.

Varðandi samgönguáætlun og fjármálaáætlun tel ég að við séum að leggja það fram í réttu samhengi. Fjármálaáætlun til næstu fimm ára var samþykkt í vor, svo kemur samgönguáætlun núna og verður aðgerðaáætlun til fimm ára í samræmi við fjármálaáætlun. Vissulega kemur ný fjármálaáætlun á næsta ári og þannig gengur það koll af kolli. En það getur kannski verið allt að þriggja ára bið eftir því að ný samgönguáætlun komi nema við tökum hana hérna upp vegna þess að það er meira að gera, meira fært. Ég held að við séum akkúrat í réttum takti. Það er mjög mikilvægt að samgönguáætlun, sérstaklega fimm ára áætlunin, sé í góðu samræmi við fjármálaáætlun. Hún þarf ekki að vera upp á krónu af því að við þekkjum að útboð geta verið bæði lægri og hærri og það geta verið tafir á framkvæmdum þar sem þetta getur breyst í greiðslugrunni. Þetta þarf að vera nokkurn veginn sambærilegt þannig að skilaboðin úr þessum sal séu þau sömu hvort sem við samþykkjum fjármál eða áætlanir í samgöngumálum.

Varðandi bundin útgjöld og Dýrafjarðargöng þá eru felld niður ákveðin bundin útgjöld. Til að mynda er Herjólfsferjan að klárast þannig að þar falla niður tiltekin bundin útgjöld, en Dýrafjarðargöngin eru áfram inni samkvæmt gildandi samgönguáætlun. Það þurfa auðvitað að vera fjármunir til og þeir eru þarna, ef ég hef skilið þingmanninn rétt.