149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:53]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ekki láta mig byrja að tala um Herjólf. En varðandi aðgerðir í loftslagsmálum er verið að biðja um pening fyrir þeim núna þannig að við ættum að fá að vita hvað þær kosta. Það er ekki hægt að vera með tóman tékka hérna og láta okkur fá einhverja peninga fyrir fullt af aðgerðum sem við ætlum að gera en við vitum ekki hvaða árangri þær munu skila eða hvað þær kosta.

Flettum aðeins yfir í byggðamálin og uppáhaldsmarkmiðið mitt, að stuðla að sjálfbærri þróun byggða í fjármálaáætluninni þar sem mæla á árangurinn af því með framfærsluhlutfalli eftir landshlutum. Nú hafa nokkur atriði, aðgerðir, til þess að ná þessu markmiði fallið út, verkefnið Brothættar byggðir er ekki lengur í fjármálaáætlun, þ.e. það er í fjármálaáætlun en ekki í fjárlögum. Einhver alþjóðleg verkefni hafa bæst við, svo sem þátttaka í ESPON, NPA og NORA, svo og rannsóknir á sviði byggðamála. Ég velti fyrir mér hvernig þessar aðgerðir, þ.e. höfuðborgarstefna, sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða, alþjóðleg verkefni og rannsóknir á sviðum byggðamála, munu ná markmiðum um að framfærsluhlutfall eftir landshlutum verði óbreytt miðað við stöðuna 2017, miðað við hvernig lýðfræðilegar breytingar munu hafa áhrif á þetta sama framfærsluhlutfall.

Eina leiðin sem ég sé til að hægt sé að halda sama framfærsluhlutfalli er einfaldlega að flytja til fólk sem er á aldrinum 14–65 ára eða 15–64 ára, eða að flytja til fólk á því aldursbili sem vantar inn í til þess að jafna út því að aldursdreifingin á að vera jöfn í öllum landshlutum, líka höfuðborgarsvæðinu. Það þýðir ekkert að flytja fólk af höfuðborgarsvæðinu út á land til þess að halda jöfnu hlutfalli því að þá skekkist það meira á höfuðborgarsvæðinu eða öfugt.

Mig langaði aðeins að fræðast um hvernig þær aðgerðir sem eru settar fram í fjárlögunum (Forseti hringir.) munu ná þessum markmiðum.