149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:55]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Við hv. þingmaður höfum áður rætt mælikvarðana á hvernig gengur, hvaða markmið menn setja sér og hvort hægt sé að ná þeim. Við höfum ekki náð alveg saman annars vegar um sjónarmið þingmannsins og hins vegar þá stefnu sem hér er búið að samþykkja, þannig að ég veit svo sem ekki hvort við getum dýpkað hana hér á þessum stutta tíma. En tilgangurinn er auðvitað sá að búa til það samfélag að í einstökum landshlutum verði ekki mikil skekkja á aldurspíramídanum heldur verði nokkur öflug samfélög, nokkuð jöfn og eðlileg samfélög í ólíkum landshlutum í ólíkum byggðum.

Varðandi einstök verkefni, eins og hv. þingmaður nefndi um Brothættar byggðir er það mikilvægt verkefni. Það er áfram í gangi. Þó að það sé ekki með einhvern sérstakan fjármálalið eru undir þessum lið byggðaaðgerðir, kannski einar þær mikilvægustu þar sem við tökum á þeim byggðum sem eru brothættastar. Við erum samt að reyna, og það var skilgreint upphaflega, að grípa inn í áður en þær brotna. Þessar byggðir eru brothættar og satt best að segja hafa í það minnsta tvö byggðarlög verið útskrifuð úr þessum pakka. Ef ég man rétt eru um sjö byggðarlög í þessu verkefni í dag. Ég held að við getum alveg sagt að þetta verkefni eitt og sér hafi gefist vel, það hafi verið skynsamlegt. Lagst hefur verið yfir það með árangursmælikvörðum, með rannsóknum, til að meta hvernig gekk. Matið var að við skyldum halda áfram á þeirri braut og væri aðeins hægt að lagfæra einstök verkefni. Þó að það standi ekki nákvæmlega í þessum knappa texta um allt (Forseti hringir.) sem ríkið er að gera eru Brothættar byggðir eftir sem áður hluti af verkefnunum í byggðaáætlun.