149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:02]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það sem ég var kannski að velta upp hérna er að af því að landshlutasamtökin eru ekki stjórnvald hafa þau ekki lagalegan grunn á bak við sig. Ég held að það sé það sem þau eru að velta fyrir sér. Sveitarfélögin hafa eins og við þekkjum verið að útvista til þeirra þessu verkefni. Eins og hjá Eyþingi og víðar annars staðar fyrir austan skiptir máli að það sé á hreinu hvort þessi grunnur sé til staðar, hvort við viljum yfir höfuð setja hann og hvort það sé hægt af því að það er ekki nein eiginleg stjórnsýsla í kringum landshlutasamtökin. Þeim var líka misskipt í upphafi, þ.e. framlögum til handa þeim þegar byrjað var á þessu verkefni, að færa það til landshlutasamtakanna. Það var ótrúlega skrýtin skipting sem við höfum áður rætt hér, a.m.k. ég nokkuð oft.

Mig langaði í restina að spyrja hæstv. ráðherra um innanlandsflugið. Við höfum heyrt það mikið og oft og setið marga fundi þar sem talað er um hina skosku leið og ég veit að hæstv. ráðherra var með hóp sem var að vinna í þeim málum. Mig minnir að hann hafi átt að skila á haustdögum einhverjum tillögum um hvort innanlandsflugið geti flokkast sem almenningssamgöngur eða hvort þessi skoska leið verði ein og sér eða partur af einhverju stærra. Við vitum að allt þetta tekur tíma að innleiða því að mikilvægt er að huga að því, og ég segi allan hringinn, það er ekki nóg að íbúar komist frá svæði sínu í gegnum einhverja niðurgreiðsluleið heldur viljum við að ættingjarnir komist þangað líka án þess að hálf höndin fari af vegna kostnaðar. Þetta er eitt af því sem mig langar að spyrja ráðherrann (Forseti hringir.) um: Er búið að skila einhverjum tillögum, eða hvenær er þeirra að vænta?