149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:07]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir framsögu hans í dag. Ég velti því nú fyrir mér eftir þessar umræður að vissulega höfum við séð að lagt hefur verið í samgöngumálin á undanförnum mánuðum og misserum og við urðum vör við það í sumar að malbikunarvélar voru að störfum víða um land. En það er bara svo miklu meira sem þarf og við erum sammála um það, ég og hæstv. samgönguráðherra, að það þarf að gefa verulega í varðandi vegakerfi landsins. Ég ætla nú ekki að þreyta hann á því að nefna öll þessi verkefni sem eru gífurlega umfangsmikil og mjög dýr og kosta miklu meira en 4 milljarða eða 8 milljarða. Þó að þetta komi sér vel til viðgerða er þetta ekkert í nýframkvæmdir. Sundabrautin t.d. og Kjalarnesið, tvöföldun þar á akstursleiðum, og svo má lengi telja. Ég ber þá von í brjósti að þegar við sjáum samgönguáætlun birtast verði tekið á þessu og landsmönnum og ferðamönnum boðið upp á framsýna og heildstæða samgönguáætlun sem tekur á öllu þessu.

Það er allt annað umhverfi í dag en bara fyrir nokkrum árum. Við erum ekki bara að tala um aukinn fjölda íbúa, aukinn fjölda af bifreiðum, aukinn fjölda af ferðamönnum, við erum líka að tala um mikla aukningu á þungaflutningum á vegunum, fiskflutningum, líka í sambandi við fiskeldi, miklu meiri flutningum alls staðar að. Við erum að horfa á allt annan veruleika en bara fyrir nokkrum árum.

Ég ætla að koma með eina spurningu í þessari fyrri ræðu, (Forseti hringir.) um innleiðingu EES-reglna varðandi atvinnuréttindi bílstjóra flutningabifreiða og rútubifreiða. (Forseti hringir.) Nú leið þetta undir lok 10. september sl. (Forseti hringir.) Er í bígerð hjá ráðherra að framlengja frest sem þessir bílstjórar hafa til endurnýja sín réttindi?

(Forseti (ÞorS): Forseti brýnir fyrir þingmönnum að virða tímamörk.)