149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:12]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svar hans og þó að ég geti verið ánægður með að malbikunarvélarnar hafi verið settar í gang í sumar á það alls ekki við um það sem ég var að tala um, ég var að tala um nýframkvæmdir. Við köllum eftir nýframkvæmdum.

Minn flokkur hefur áður tekið fasteignagjöld til umræðu í sölum Alþingis. Allir vita að grundvöllur þessara gjalda er fasteignamatið sem ákveðið er af stofnun úti í bæ. Reyndin hefur orðið sú að greiðendur fasteignagjalda hafa þurft að þola stórfelldar hækkanir á þessari skattlagningu án þess að nokkur kjörinn fulltrúi hafi átt aðkomu að grunni þeirrar skattlagningar.

Fasteignagjöld hafa á undanförnum misserum verið mjög sveiflukennd og hækkað stórkostlega og langt umfram almennt verðlag. Það er einn hópur sem hefur orðið sérstaklega illa úti í þessu sambandi, það er eldra fólk sem á sumarhús og á í mestu erfiðleikum með að greiða af þessum sælureit sínum og fjölskyldunnar. Hvaða áform hefur ráðherra um endurskoðun þessara gjalda og grunns þeirra og hver yrðu markmið hans við þá endurskoðun?

Mig langar líka að spyrja ráðherra um Herjólf. Í fyrsta lagi: Þegar ný ferja kemur í vetur, hver er viðbúnaðurinn ef Landeyjahöfn lokast eftir að hún kemur? Er t.d. til áætlun um viðbúnað og notkun á gamla Herjólfi? Og er í bígerð einhver úttekt á því hvernig þurfi að stækka Landeyjahöfn svo hún geti betur gegnt hlutverki sínu?