149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:16]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Í ljósi nýkynntrar loftslagsáætlunar er forvitnilegt að skoða hvernig samgöngukafli fjárlaga talar til umhverfismarkmiða ríkisstjórnarinnar og Parísarsáttmálans. Það geta ekki allir keypt Teslu, sagði hæstv. ráðherra í þessum stóli fyrir sléttu ári síðan, upp á dag, og mögulega er það þetta viðhorf hæstv. ráðherra sem réð því að helmingur fyrirhugaðrar hækkunar á kolefnisgjöldum síðustu ríkisstjórnar var tekinn til baka. Þó virðist ráðherrann hafa tekið sönsum ef marka má stuðning hans við bann á nýskráningum bensín- og dísilbíla og því ber að fagna.

Þessi hugleiðing leiðir mig að höfuðborgarsvæðinu þar sem raunverulega munar um loftslagsáhrif af samgöngum. Eðlilega vaknar þá sú spurning, af því að við erum að ræða fjárlög næsta árs: Hvar er höfuðborgin í samgöngukafla fjárlaganna? Hvar er forgangsröðun til nauðsynlegra samgöngubóta í Reykjavík? Hvar er borgarlínan? Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig standa viðræður samgönguyfirvalda við borgaryfirvöld um fjármögnun þess verkefnis? Hvernig væri að nýta fjárfestingarframlögin, sem hæstv. ráðherra verður tíðrætt um, þar sem umferðin er þyngst og slys tíðust?

Talandi um háa slysatíðni vakti það líka athygli að Grindavíkurvegur er nefndur í framhjáhlaupi í kafla fjárlaganna um efnahagshorfur en hann er hvorki í fjárheimildum í samgöngumálum né í aðgerðaáætlun ráðherra. Þó er það skárra en umræðan um Reykjavík því að um samgöngur í borginni er ekki stafkrókur. Þó stendur í stjórnarsáttmála, með leyfi forseta:

„Við forgangsröðun í vegamálum verður sérstaklega litið til ólíkrar stöðu svæða, ferðaþjónustu og öryggissjónarmiða.“

Hvers vegna er höfuðborgarsvæðið ekki mjög ofarlega, ef ekki efst, í forgangsröðun út frá þeim orðum?