149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:18]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar sem mér fannst á margan hátt athyglisverðar. Nei, það geta ekki allir keypt Teslu og munu ekki geta en svo fannst mér þingmaðurinn vísa til þess að hugsanlega væri það hægt á höfuðborgarsvæðinu. (Gripið fram í.)Ég hef ekki skipt um skoðun, það geta ekki allir keypt Teslu. Þróunin er hins vegar sú að sífellt verða til ódýrari bílar. Þess vegna skiptir máli að við byggjum upp innviðina á sama tíma og við leggjum á álög og íþyngjandi skatta og ýmislegt annað sem gerir að verkum að fólk er þvingað eða hefur ekki val og þarf bara að greiða, svo það eigi þennan möguleika. Þess vegna gerum við þetta í takt. Þess vegna tókum við hugmynd, væntanlega frá hv. þingmanni og flokki hennar þegar viðkomandi var í ríkisstjórn, sem ætlaði að setja á mikinn landsbyggðarskatt. Við drógum úr því en erum að setja það inn vegna þess að smátt og smátt er okkur að takast að byggja upp innviðina.

Þetta er það sem mér þótti athyglisverðast hjá hv. þingmanni. Þingmaðurinn spurði látlaust: Hvar eru fjárframlögin til höfuðborgarsvæðisins? Hvar eru þau hér? Hvar eru þau hér og hvar eru þau hér og hvar eru þau hér? Varaformaður sama flokks (Gripið fram í.) hefur gagnrýnt okkur og þessi fjárlög fyrir eyðslusemi hægri og vinstri. En hér er kallað: Hvar eru fjárframlögin í þetta og hvar er hitt? (Gripið fram í.) Mér heyrist hv. þingmaður vera að tala um samgönguáætlun. Við erum að tala um fjárlögin. Það er veruleg aukning í samgöngur á Íslandi en við erum ekki búin að sundurliða hvert þeir fjármunir fara. Það mun gerast í samgönguáætlun þegar við förum að ræða hana, þá getum við tekið umræðuna um það hvort óeðlilega stór eða lítill hluti fer á höfuðborgarsvæðið.

Mér þótti þetta athyglisvert vegna þess að í allri umræðu um fjármál og fjárlög þessarar ríkisstjórnar hafa fjárlögin verið kölluð eyðslufjárlög og fjárlög án undirbúnings og ég veit ekki hvað og hvað af hálfu þess flokks sem hv. þingmaður er í, sem núna kallar á alls konar útgjöld í þágu höfuðborgarsvæðisins.