149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:25]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Það er af mörgu að taka í tengslum við fjárlög þegar kemur að samgöngumálum, en það eru nokkur atriði sem mig langaði til að nefna hér og spyrja hæstv. samgönguráðherra út í.

Í fyrsta lagi, þó að það komi ekki fram í fjárlögum þessa árs sést ef við horfum á fjármálaáætlunina til fimm ára að fall verður í fjárveitingum til nýframkvæmda eftir að þriggja ára átaki lýkur á árinu 2021 sem nemur viðbótarfjárhæðinni. Það fær mig til þess að koma þeirri ábendingu til hæstv. ráðherra að í undirbúningi fjárlaga núna eða þeirri vinnu sem fram undan er til loka árs verði unnið vel að því annars vegar að tryggja svigrúm til aukinna útgjalda til samgöngumála til framtíðar, sérstaklega til næstu ára til þess að vega upp á móti lækkun fjárveitinga til nýframkvæmda, og hins vegar að tryggja að inn í fjárlög komi þær heimildir sem nauðsynlegar eru til þess að menn geti unnið slík mál áfram næsta árið.

Hitt atriðið sem mig langar að nefna við hæstv. ráðherra, ég gerði það líka á síðasta þingi, er að mig langar að forvitnast um stöðu mála er varða samning ríkisins og höfuðborgarinnar um frestun stórframkvæmda og að á sama tíma verði aukið um u.þ.b. milljarð á ári í stuðning við almenningssamgöngur. Hver er staðan á þeim samningi, hæstv. samgönguráðherra?