149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:30]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir fjárveitingu upp á 730 milljónir í botndælubúnað í Landeyjahöfn. Sá búnaður er þannig úr garði gerður að kranar eru beggja megin við innsiglinguna og þeir eiga að moka upp sandi sem berst fyrir innsiglinguna. Kranarnir ná hins vegar ekki upp á land þannig að sandinum er ekki mokað upp á land heldur er hann settur aftur í sjóinn. Það eru því mjög skiptar skoðanir um það hvort þessi búnaður kemur yfir höfuð til með að gagnast nokkuð.

Það sem ég vildi ræða hér við ráðherra er það hvenær hann sjái fyrir sér að þessi búnaður verði tekinn í notkun og hver rekstrarkostnaður hans sé áætlaður á ári.

Í upphafi þessa árs höfnuðu Ríkiskaup öllum tilboðum sem bárust í fastan dælubúnað við Landeyjahöfn. Spurningin er þá þessi: Kemur þessi fjárveiting til með að duga? Við komum svo aftur að þessu: Er tryggt að þessi dælubúnaður leysi það erfiða og kostnaðarsama mál sem sandburðurinn er fyrir innsiglinguna?

Hæstv. ráðherra hefur verið þeirrar skoðunar, ef ég man rétt, að þriðji aðili taki út vandamálið sem þarna hefur verið og komi með tillögu til úrbóta. Þá er fróðlegt að fá að vita hvort ráðherra hafi beitt sér í þá veru í málinu og þá sérstaklega þegar ákvörðun um að kaupa botndælubúnaðinn var tekin.

Það væri líka gott að fá skoðun ráðherrans á þessum búnaði eins og ég sagði áðan; (Forseti hringir.) það eru mjög skiptar skoðanir um hvort hann gagnist en hann kostar mikla peninga.