149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:37]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir að taka þetta upp við umræðuna um fjárlögin, þ.e. þær flutningsjöfnunarleiðir sem við höfum. Við höfum sjóð sem jafnar flutninga á olíuvörum almennt og er grundvöllur þess að allir búi við sams konar kostnað og aðstæður í uppbyggingu í rekstri fyrirtækja sinna, líka einstaklingar. Bensínverð og olíuverð er þar af leiðandi með líkari hætti þó að það sé auðvitað ekki eins, enda getur samkeppni kallað fram lægra verð á einstaka svæðum.

Varðandi fyrirspurnina um jöfnun eldsneytisverðs á flugvélabensíni hefur sú umræða — og hv. þingmaður hefur lagt fram mál á þingi um það. Þetta er eitt af því sem við höfum aðeins fengið mismunandi svör við. Eins og sakir standa er verið að vinna að því í ráðuneytinu að fá saman þá aðila sem gætu svarað því best til þess að skera úr því í eitt skipti fyrir öll. Sumir hafa sagt að þetta skipti engu máli varðandi það að draga að ný flugfélög til þess að fljúga til að mynda á Egilsstaði og Akureyri, á meðan aðrir hafa sagt að þetta sé grundvöllur alls. Við þurfum að fá úr því skorið hvort sé raunin. Ég er sammála hv. þingmanni, þá verður þetta mikilvægt mál og við ættum að gera það með nákvæmlega sama hætti og varðandi jöfnun olíuverðs.

Hitt atriðið sem hv. þingmaður nefndi er hin svæðisbundna flutningsjöfnun. Hún er gríðarlega mikilvæg. Það er rétt að kúabændur sjálfir hafa tekið á sig samvinnufrumkvæði. Þeir tryggja að sami kostnaður sé við að sækja mjólk heim til hvers og eins. Aðrar atvinnugreinar hafa það ekki. Í núverandi kerfi eru sumir þar undanskildir. Það er einmitt að koma frumvarp frá ráðuneytinu í haust um það þar sem við erum aðeins að víkka þetta út, vegna þess að við höfum ekki nýtt fjárheimildir nægilega vel innan þessa kerfis. En það er vaxandi eftirspurn og vonandi eru fleiri framleiðslufyrirtæki sem gætu nýtt sér (Forseti hringir.) þessa flutningsjöfnun og setið við sama borð og aðrir, til að mynda þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu.