149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:40]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka svörin og vil þá benda á varðandi tilfellið með flugvélaeldsneytið að það eru náttúrlega líka flugfélög sem starfa eingöngu á þessum flugvöllum, eins og á Norðurlandi, og fljúga m.a. til Grænlands.

Annað mál sem mig langar að koma inn á er að eitt af markmiðunum í málefnasviðinu Samgöngu- og fjarskiptamál er undirbúningur afnáms einkaréttar á póstþjónustu árið 2020. Í þingmálaskrá kemur fram að von er á frumvarpi til laga um póstþjónustu. Ég held að öllum sé ljóst sem fylgst hafa með þróun póstþjónustu síðustu árin að forsendur rekstrar á því sviði eins og við höfum þekkt hana síðustu árin, áratugina eða aldirnar eru hrundar, ekki bara á Íslandi heldur líka í Evrópu, Norður-Ameríku og víðar. Ein ástæða þess er alþjóðlegir samningar á þessum sviðum sem byggja á gömlum grunni þar sem samgöngur og efnahagur í heiminum voru með allt öðrum hætti en núna. Það leiðir til þess að kostnaður við að þjónusta vörusendingar í póstverslun eins og t.d. frá Kína fellur fyrst og fremst til í móttökulandi vörunnar án þess að henni fylgi greiðslur til að standa undir þeim kostnaði.

Önnur ástæða fyrir breyttum forsendum póstþjónustu er hrun í bréfapóstsendingum sem fara enn minnkandi, m.a. vegna markmiða annars staðar í fjárlagafrumvarpinu um aukningu í rafrænni þjónustu innan lands.

Þrátt fyrir þetta er það mikið hagsmunamál fyrir einstaklinga um allt land að geta notið þjónustu sem flytur póst. Ekki síst á það við um atvinnurekendur í strjálbýli. Ég vil þess vegna spyrja hvort ráðherra sé kunnugt um að unnið sé að breytingum á alþjóðasamningum varðandi póstþjónustu, hvort unnar hafi verið greiningar á því að hve miklu leyti markaðslausnir geta leyst af póstþjónustu á Íslandi (Forseti hringir.) og hvort og þá hvernig unnið sé að því að finna leiðir til að samþætta póstþjónustu í strjálbýli (Forseti hringir.) annarri þjónustu sem þar er rekin.