149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:52]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnirnar. Í fyrsta lagi er alveg ljóst að það er skýr stefna þessarar ríkisstjórnar að við viljum hafa öflugt ríkisútvarp. Við leggjum til að það eigi að banna kostun og fækka auglýsingamínútum enda má segja að við viljum skapa aukið jafnvægi milli ríkisfjölmiðilsins og einkarekinna fjölmiðla.

Við erum að skoða núna leiðir með Ríkisútvarpinu hvernig við ætlum að bæta því þetta upp. Því verður sannarlega bætt þetta. Það kann að vera að það verði í gegnum hliðrun á milli málefnasviða eða öðru slíku, en við höfum ekki útfært þetta. Það má heldur ekki gleyma því að það hefur verið að fá talsverðar hækkanir á milli ára, en við munum bæta þetta.

Hv. þingmaður spurði einnig út í þá tillögu að við ætlum að endurgreiða sérstakan ritstjórnarkostnað til rit- og ljósvakamiðla eins og var kynnt á blaðamannafundi nú í vikunni. Við gerum ráð fyrir því að þegar frumvarp þess efnis lítur dagsins ljós og við erum komin með nákvæma kostnaðargreiningu muni þessir fjármunir koma inn í meðferð þingsins. Það stendur skýrum stöfum í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar að við ætlum að bæta starfsumhverfi einkarekinna fjölmiðla enda skiptir mjög miklu máli að það sé meira jafnvægi. Við skerum okkur úr er varðar Norðurlöndin. Við erum eina landið á Norðurlöndunum sem styður ekkert við sína einkareknu fjölmiðla og eina landið þar sem ríkisútvarpið er jafn umsvifamikið á auglýsingamarkaði.