149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:56]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Það er sannarlega einhugur í ríkisstjórninni um að styðja betur við bakið á einkareknum fjölmiðlum. Ástæða þess að þetta er ekki í fjárlagafrumvarpinu er einkum sú að við erum að vinna að þessu frumvarpi og nákvæm kostnaðargreining liggur ekki fyrir en við erum búin að áætla hvað þetta verður. Það er einfaldlega svo að við skerum okkur svo verulega frá Norðurlöndunum hvað þetta varðar að það er tími aðgerða núna. Við verðum að fara í þetta ef við ætlum að hafa eðlilegt starfsumhverfi fjölmiðla hér á landi.

Eins og hv. þingmaður veit sjálfsagt er samkeppnin um auglýsingatekjur alltaf að verða erfiðari og erfiðari með tæknibreytingum og öðru slíku. Stór hluti þeirra, m.a. á Norðurlöndunum, er farinn að fara til stórra upplýsingaveita eða samfélagsmiðla. Eitt af því sem við erum að gera með þessum aðgerðum er að reyna að ná utan um þetta þannig að það sé samræming í skattlagningu er varðar innlendar og erlendar auglýsingatekjur. Það er afskaplega brýnt. Við erum ekki eina landið sem er í slíkum leiðangri. Það eru áskoranir fyrir alla aðra fjölmiðla út af þessum tæknibreytingum og þessari þróun. Því var ekki hægt að bíða neitt með það að koma fram með heildstæða aðgerðaáætlun. Hún miðast auðvitað ekki bara við fjölmiðla, hún gengur út á það að styðja betur við íslenskuna. Þessi aðgerðaáætlun er í fjórum liðum, fyrst er varðar bókaútgáfu, í öðru lagi varðandi fjölmiðla, í þriðja lagi vegna stafrænnar framtíðar íslenskunnar og í fjórða lagi mun ég kynna hér þingsályktunartillögu í 22 liðum sem miðar öll að því að styðja betur við íslenskuna.