149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:58]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa yfirferð þar sem hún fór yfir málaflokk sinn. Ég hygg að það sé svo að hjörtu okkar ráðherrans slái nokkuð líkt þegar minnst er á aðgerðir til að lágmarka brottfall úr skólum og þátt iðnmenntunar eða verkmenntunar í því. Ég sé á bls. 335 að gert er ráð fyrir því að 250 millj. kr. framlagi verði dreift á framhaldsskóla út af undanþágu frá innheimtu efnisgjalda. Það er út af fyrir sig gott.

En ég veit að nú er hafin í ráðuneyti ráðherrans vinna við stefnu til ársins 2030 og ég veit að þar hefur valist til forystu ágætur einstaklingur. Mig langar að forvitnast aðeins nánar um það hvernig ráðherrann sér þá vinnu fara fram vegna þess að sjálfur hef ég verið svolítið hallur undir það vegna þess að ég er búinn að heimsækja iðnfyrirtæki undanfarin nokkur ár sem hafa verið í vandræðum með að manna sig vegna þess að okkur skortir iðnmenntað fólk, við höfum ekki útskrifað plötusmiði í líklega 20, 30 ár o.s.frv. Ég kom í eitt mjög framsækið fyrirtæki í fyrra sem rekur m.a. stærsta renniverkstæði á Íslandi. Það er nú prik í kladda ráðherrans ef hún veit hvaða fyrirtæki þetta er, ég segi það á eftir. Ég spurði hvort þetta fyrirtæki væri til í að taka til sín jafnvel nema. Það virtist ekki vera neitt því til fyrirstöðu. Ég sagði: Hvers vegna hefur þetta ekki verið gert? Svarið var: Það hefur enginn beðið okkur um þetta.

Þess vegna spyr ég þegar við erum að tala um þetta til lengri tíma, en auðvitað verðum við að taka á þessu til skemmri tíma. Mig langar til að vita hvernig ráðherra sér þessa vinnu fara (Forseti hringir.) fram í framhaldinu.