149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:11]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé eiginlega mergurinn málsins. Ég sagði áðan að líklega losaði hlutur Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði í ljósvakamiðlum á Íslandi ríflega 50%. Við erum þar með stöðu sem er fáheyrð og leyfi ég mér að fullyrða að hvergi annars staðar á Vesturlöndum sé staða ríkisins á auglýsingamarkaði í fjölmiðlum neitt í námunda við þetta. Líklega þyrfti að fara jafn austarlega og til Rússlands til að komast í eitthvað sambærilegt.

Þá er ég með spurningu til ráðherra út af bótatalinu um að bæta þyrfti Ríkisútvarpinu það sérstaklega ef umsvif þess minnkuðu á auglýsingamarkaði. Ég ítreka að Ríkisútvarpið er með innbyggða raunaukningu á tekjum milli ára umfram allar aðrar ríkisstofnanir sem ég þekki til. Umfang þess eykst hlutfallslega á íslenskum fjölmiðlamarkaði frá ári til árs. Við sjáum svo sem hvert það myndi leiða varðandi einkareknu fjölmiðlana ef það gengi svona áfram.

Ég sé að á milli áranna 2018 og 2019 þýðir raunaukningin á tekjum umfram verðlagsbætur 360 millj. kr. Má þá ekki segja sem svo, hæstv. ráðherra, að minnkandi umfang Ríkisútvarpsins, en reiknað var með eitthvað um 500 millj. kr., sé svo gott sem fullbætt í þeirri raunaukningu á tekjum?