149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:16]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Íslendingar eru menntuð þjóð og þykja í alþjóðlegu samhengi standa vel hvað safnamenningu varðar. Því skýtur skökku við að Ísland sé eina landið í vestrænu samfélagi sem býr ekki yfir vísindasafni. Vísindasöfn eru sá hluti óformlegrar menntunar sem styður einna helst við formlega menntun í vísindum og tækni á öllum skólastigum. Ljóst er að það er mikil þörf fyrir hendi, þörf fyrir að komast upp úr bókunum með gagnvirkum og þrívíðum hætti. Stórar og vandaðar rannsóknir hafa verið gerðar á gagnsemi vísindasafna á samfélög. Þar hefur ótvírætt og endurtekið verið sýnt fram á að vönduð vísindasöfn örva gagnrýna hugsun, draga fram hæfileikann til að finna skapandi og óvenjulegar lausnir. Eins sýna rannsóknir fram á að bæði börn og almenningur öðlast meira tækni- og vísindalæsi við að komast í tæri við og hafa aðgang að gagnvirkum vísindasöfnum.

Fjórða iðnbyltingin er ekkert að hægja á sér nema síður sé og því er það ábyrgð okkar allra að taka strax þau nauðsynlegu skref sem þarf til að búa svo um hnútana að börn og ungmenni þessa lands hafi það veganesti sem þarf til að halda í við alþjóðasamhengið í þessum efnum.

Nú þegar við ræðum fjárlög ársins 2019 er við hæfi að spyrja ráðherra um afstöðu hennar til stofnunar gagnvirks vísindasafns eða -miðstöðvar á Íslandi. Hvernig líst ráðherra á hugmyndina og er það eitthvað sem hún gæti séð fyrir sér verða að veruleika á kjörtímabilinu? Er mögulega eitthvert svigrúm í núverandi fjárlögum til að taka fyrstu skrefin?

Þetta er það sem ég vildi aðallega segja en ég má til með bæta einu við. Það er áþreifanlega miklu betri starfsandi á Alþingi en var þegar ég var að vinna hérna í vor. Mér finnst það mjög ánægjulegt og mér sýnist eins og að menn hafi hlustað á orð Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, (Forseti hringir.) þegar hann sagði á þriðjudaginn að Alþingi Íslendinga yrði að dusta vitleysuna burt. Ég vonast til að þetta haldist svona.