149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:25]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir innleggið um mennta- og menningarmálin sem mér hefur gjarnan þótt talsvert mikið spennandi í því sem við erum að fjalla um í fjárlögunum. Ég ætla að byrja á að gleðjast yfir aukinni aðsókn í kennaranám sem hefur ekki verið nefnt í umræðunni. Það hefur verið svo þungt undanfarin ár hvað hefur fækkað og mér finnst breytingin mjög ánægjuleg. Það er eitt af því sem kemur vonandi til með að skila okkur miklu.

Ég ætla að fara yfir nokkra hluti sem mér finnst áhugaverðir og þurfi að draga hérna fram sem er verið að bregðast við. Það er m.a. könnun um þjónustu framhaldsskóla vegna nemenda af erlendum uppruna. Það á að kalla eftir móttökuáætlun vegna framhaldsskóla sem ég held að sé afar mikilvægt sem og auðvitað að greina þátttöku barna af erlendum uppruna í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Þetta eru hópar sem verða oft undir. Líka er verið að tala um stöðu barna með annað móðurmál en íslensku. Þar á að vinna eftir framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda. Ekki síst á að skima fyrir brotthvarfi á unglingastigi í grunnskólanum með þessa erlendu nemendur sérstaklega að leiðarljósi.

Ég fagna líka þeirri breytingu í framhaldsskólanum að skólinn fær nú greitt fyrir nemanda sem er í skólanum þremur vikur eftir að önnin hefst og er í 75% námi í staðinn fyrir gamla kerfið þar sem miðað er við þá sem þreyta próf. Ég þekki það þar sem ég var í þessum geira að það skiptir máli að slíkt sé gert. Eins er með áhrifin af því að telja einingarnar sem breytir því að þetta er reiknað sem 6% fleiri en ef miðað væri við fyrri aðferð.

Tíminn sem maður fær er endalaust og alltaf svo stuttur. Best að ég komi á eftir inn á það sem mig langaði að spyrja um. Ég fagna breytingu á reiknilíkaninu. (Forseti hringir.) Ég hef talað mjög mikið um það á fundum fjárlaganefndar og vona svo sannarlega að það sé raunverulega að líta dagsins ljós.