149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:27]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, það er auðvitað mjög ánægjulegt að sjá þessa auknu aðsókn í kennaranám. Við erum að tala um tuga prósenta aukningu á milli ára, bæði í Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands. Ég fór með forsvarsmönnum beggja þessara háskóla til Noregs til að læra af þeim vegna þess að þeir standa frammi fyrir svipuðum áskorunum og við. Ég held að á næstu tíu árum vanti 34.000 kennara í norska menntakerfinu. Þó að þessi aukning sé mjög ánægjuleg er ekki þar með sagt að við vitum eða sjáum endanlega til lands. Við fögnum þessu auðvitað. Ég legg mikla áherslu á að við höldum áfram á þessari vegferð. Við aukum fjármuni til að styðja sérstaklega við þetta og svo tókum við líka tillit til þess að geta tekið á móti þessum nýju nemum. Ég tek undir með hv. þingmanni, þetta er afar brýnt.

Í öðru lagi varðandi börn ef erlendum uppruna er það mjög skemmtileg áskorun sem við stöndum frammi fyrir. Við getum gert ýmislegt og lærum af öðrum þjóðum. Í þessari ferð til Noregs voru tvö meginmarkmið, annað að læra og kynna sér hvað Norðmenn væru að gera varðandi kennaranámið og hitt með börn af erlendum uppruna. Þar kemur margt mjög áhugavert fram. Móttaka skiptir máli og líka mikil norskukennsla. Með þessari aðgerðaáætlun leggjum við t.d. mikla áherslu á það að efla íslenskt mál. Þar horfum við líka sérstaklega til barna af erlendum uppruna til að auka aðgengi þeirra að íslensku. Ég horfi líka til þess að fjölga þeim stundum sem nemar hafa við það að læra íslenskt mál í grunnskóla. Við tökum eftir því, af því að ég er að bera saman við Danmörku, að það eru helmingi fleiri dönskutímar í dönsku námskránni (Forseti hringir.) en eru í íslensku í þeirri íslensku.