149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:34]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég vil gera að umtalsefni hér hið unga karlkyn, drengi, pilta og unga menn. Fram hefur komið í fjölmiðlum og með ýmsum hætti að svo virðist sem hið unga karlkyn eigi að sumu leyti erfitt með að fóta sig í skólum landsins og jafnvel í lífinu sjálfu í allt of mörgum tilfellum. Þannig hafa borist fregnir af að í leikskólum sé talin ástæða til að gefa þeim lyf við andlegum vandamálum í meira mæli en á við um telpur. Í grunnskólum útskrifast drengirnir með lakari lesskilning og almennt lakar læsir en á við um skólasystur þeirra. Í framhaldsskólum verður brottfall úr skóla frekar meðal pilta en stúlkna. Á háskólastigi hallar mjög á unga menn sem eru mun færri meðal stúdenta og útskriftarnemenda en á við um ungar konur.

Herra forseti. Lífið sjálft reynist of mörgu ungu fólki mótdrægt og eiga allt of margir við geðrænan vanda að glíma. Erfiðar hugsanir leita á ungt fólk eins og nýlega var rakið í dagblaði, en helst eru það ungir karlmenn sem falla fyrir eigin hendi. Er þungbært að horfa upp á þann faraldur sem hefur gengið yfir landið í þessu efni.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvaða rannsóknir stuðst er við í stefnumótun um málefni skólakerfisins þegar kemur að vanda drengja, pilta og ungra manna og hvaða áform ráðherra hefur um viðbrögð í þessu efni. Hvernig ætlar ráðherra að ná því markmiði að nemendum líði vel í skólanum af hvoru kyninu sem þeir eru? Hvaða fjármuni hefur ráðherra til að beita sér í þessum efnum? Sjást þess merki í fjárlagafrumvarpinu?