149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:36]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu vegna þess að þetta skiptir mjög miklu máli. Ég ætla ekki að fara yfir þá greinargóðu yfirferð sem hv. þingmaður veitti þingheimi hér, en þetta er mikið og brýnt samfélagsmál að mínu mati.

Ég vil nefna það að sú vinna sem hafin er við mótun menntastefnu til ársins 2030 tekur mið af þessu. Við erum með tvær verkefnisstjórnir, annars vegar eina sem ber heitið Velferð og heilbrigði og einblínir sérstaklega á vellíðan á öllum skólastigum, hvernig börnin okkar hafa það, hins vegar er það Rannsóknir og greining og fleiri aðilar, við styðjumst við gögn frá þeim og mælingar. Það er mjög sláandi að sjá að það er vaxandi kvíði meðal ungmenna sem við erum að kljást við. Við þurfum að bregðast við því og erum að gera það, ég og hæstv. heilbrigðisráðherra, með því að auka aðgengi að sálfræðiþjónustu í heilbrigðiskerfinu og á heilsugæslum.

Varðandi ungu drengina okkar þá erum við mjög meðvituð um það. Í allri vinnu sem tengist brotthvarfi skoðum við þá sérstaklega og hvernig koma megi betur til móts við þarfir þeirra af því að það er hreinlega staðreynd, út frá þeim tölum og þeirri vitneskju sem við fáum, að við horfum hugsanlega upp á það að við erum að bregðast þeim. Ég tek það mjög alvarlega. Ein verkefnisstjórnin við mótun þessarar menntastefnu fjallar sérstaklega um þetta. Við verðum auðvitað að setja okkur markmið til að minnka brotthvarf þeirra. Þegar við horfum upp á það að brautskráðir frá Háskóla Íslands 2017 eru orðnir 70% kvenkyns þurfum við að taka mið af því, það er bara þannig.