149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:42]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Það er vissulega að mörgu að hyggja í ráðuneyti hæstv. menntamálaráðherra og því ekki hægt að drepa á nema fátt eitt. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir að fylgja ekki eftir loforðum sínum um að lækka virðisaukaskatt á bókum. Ég held að það hafi verið afar skynsamlegt. Það á alltaf að hrósa fólki þegar það sér villu síns vegar, ekki síst þegar hæstv. ráðherrar eiga í hlut, og fikt í virðisaukaskattskerfinu er ákaflega óskynsamlegt. Hins vegar er erfitt að átta sig á því hvað ráðherra ætlar nákvæmlega að gera varðandi bókaútgáfuna, hvernig bæta eigi mönnum upp að virðisaukaskattur verður ekki felldur niður og hvernig gæta á jafnræðis þar.

Þá langar mig líka að þakka hæstv. ráðherra, þetta er mikil þakkarræða eins og hæstv. ráðherra heyrir, fyrir að hafa lagt fram tillögur um stuðning við frjálsa fjölmiðla. Það er svolítið svipað þar að þetta er ekki mjög mikið útfært enn þá, eftir því sem ég fæ best séð, og þarf væntanlega að skoða í samhengi við hvernig menn sjá framtíð Ríkisútvarpsins fyrir sér.

Eitt vil ég gjarnan fá að spyrja hæstv. ráðherra um og það er um fjármögnun þessara tveggja aðgerða sem, ef ég kann að reikna, nálgast það að vera milljarður. Ég átta mig ekki á því hvar það er að finna í fjárlagafrumvarpinu, hvort fjárheimildir (Forseti hringir.) ráðherrans eru þegar fullnýttar, hvaðan þetta fé á að koma, hvort bæta eigi í eða hvort ráðherra hyggist skera niður í öðrum málaflokkum.