149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:45]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mun á næstu dögum leggja fram frumvarp sem tengist stuðningi við útgáfu bóka á Íslandi. Þar verður mjög góð útfærsla á því í hverju sá stuðningur felst og nákvæmlega hvað það þýðir. Það er mjög góð greinargerð sem lýsir markmiðunum og hvernig við nálgumst þetta. Ég tel því að hv. þingmaður þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að hann fái ekki nægilega góðar skýringar. Ég skil þó vel þegar frumvarpið liggur ekki fyrir og þingflokkar hafa ekki séð það að hv. þingmenn hafi spurningar og þess vegna upplýsi ég þetta hér með. Eins og sjá má á þingmálaskránni liggur frumvarpið fyrir og ég vonast til að geta kynnt það strax í næstu viku. Þá eyðum við allri óvissu hvað það varðar.

Annað sem ég vil nefna er að fram kemur í frumvarpinu, og það hefur verið gert ráð fyrir því, að stuðningur við bókaútgáfu verði um 300–400 millj. kr. Eins og ég nefndi í framsögu minni er búið að gera ráð fyrir því en ég tek undir með hv. þingmanni um gagnsæið, þingmenn eiga auðvitað að hafa vissu fyrir því sem framkvæmdarvaldið er að segja og gera og það á að standa þarna.

En stundum er þetta eins og varðandi tillögurnar um einkarekna fjölmiðla, við erum að vinna hörðum höndum að því að klára frumvarpið um að endurgreiða ritstjórnarkostnað til ljós- og ritmiðla. Það var mjög brýnt að bregðast hratt við vegna þess að staðan er hreinlega ósjálfbær. Við viljum færa okkur í átt að Norðurlöndunum. Þess vegna erum við að gera það sem við erum að gera.