149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:47]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir svörin þótt ég hafi ekki alveg enn þá áttað mig á því hvar peningarnir eru í báðar þessar aðgerðir. En hæstv. ráðherra hefur tækifæri til að bæta úr á eftir.

Mig langaði aðeins að víkja að allt öðru máli. Það hefur orðið mikil bylting í samskiptum og samskiptaháttum eða samskiptaleiðum, má segja, ekki síst á meðal ungs fólk. Allt það hefur mjög mikil áhrif á daglegt líf. Margt af því er auðvitað mjög jákvætt en skuggahliðarnar eru líka dálítið margar. Þar má nefna stafrænt ofbeldi, ekki síst kynferðislegt, gagnvart börnum og ungmennum. Þá virðast mörk hins persónulega og þess opinbera riðlast mjög og það hvað má og má ekki í samskiptum fólks í bland við margvísleg bein og óbein skilaboð til ungmenna um kynferðislega hegðun.

Í kaflanum um leik- og grunnskólastig er að finna margvíslegar aðgerðir til að stuðla að bættri menntun. Auðvitað er það allt þakkarvert og ekki síst í íslensku. Ég hjó eftir því að þar er sérstaklega lögð áhersla á fjármálalæsi vegna undirbúnings fyrir PISA-könnun. Ég sakna þess svolítið að sjá ekkert um kennslu um samfélagsmiðla, samskipti, persónuleg mörk og kynferðisleg samskipti. Þess vegna langar mig að spyrja ráðherrann hvort áform séu uppi um fjármagn til hluta af því tagi og hvort það sé í áherslum ráðuneytisins. Ef svo er, hver eru þau og hversu miklum fjármunum hyggst ráðuneytið verja í þann málaflokk, sem er orðinn umfangsmikill og hefur mjög víðtæk áhrif víða í samfélaginu og getur í mörgum tilvikum leitt til mikils skaða og afbrota?