149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:51]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Í ár fögnum við Íslendingar aldarafmæli fullveldis. Ég er stoltur af okkur Íslendingum sem höfum sýnt umheiminum að þrátt fyrir fámenni erum við sjálfstæð þjóð sem hefur rödd í alþjóðasamfélaginu og getum staðið á eigin fótum. Ísland sækir, eins og önnur ríki, sjálfstæði sitt og fullveldi til viðurkenningar annarra ríkja og þjóðaréttar.

Utanríkisþjónustan stendur vörð um hagsmuni lands og þjóðar á alþjóðavettvangi, á sviði stjórnmála, viðskipta og menningar og veitir skilvirka borgaraþjónustu. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru leiðarljós í utanríkisstefnunni enda miða þau að því að tryggja sjálfbæra framtíð okkar allra.

Fjárlagafrumvarpið byggir á fimm ára fjármálaáætlun sem Alþingi samþykkti sl. vor. Frumvarpið gerir ráð fyrir að fjárheimildir til utanríkismála hækki samtals um 1,7 milljarða kr., fari úr tæplega 15 milljörðum kr. í 16,7 milljarða kr. Fjórðungur þessarar hækkunar skýrist af hækkuðum framlögum til þróunar- og mannúðarmála sem nú munu nema 0,28% af vergum þjóðartekjum í samræmi við stjórnarsáttmálann. Er þeim ætlað að stuðla að bættum lífsgæðum íbúa fátækra ríkja og öryggi á alþjóðavettvangi. Síðar í haust mun ég leggja fram þingsályktunartillögu um þróunarsamvinnustefnu sem áfram mun miða að því að nýta íslenska sérþekkingu sem best í aukinni samvinnu við atvinnulífið.

Hagsmunagæsla á sviði utanríkisviðskipta er lykilþáttur í starfsemi utanríkisþjónustunnar. Tæplega fjórðungur af framlögum til utanríkismála varðar verkefni sem tengjast utanríkisviðskiptum en þau eru að mestu fjármögnuð af málaflokknum Utanríkisþjónusta og stjórnsýsla utanríkismála. Einungis framlög til Íslandsstofu, sem nema 796 millj. kr., falla undir málaflokkinn Utanríkisviðskipti eins og það birtist í fjárlagafrumvarpinu. Í vor samþykkti Alþingi breytingar á lögum um Íslandsstofu sem lúta að því að efla samstarf atvinnulífs og stjórnvalda í markaðsstarfi á erlendum mörkuðum. Tryggja á bætta nýtingu fjármuna og skýra stjórnsýslu Íslandsstofu.

Viðskiptasamningar við önnur ríki hafa skilað íslensku þjóðarbúi umtalsverðum ávinningi en þar ber hæst EES-samninginn. Í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð aukin áhersla á framkvæmd hans og er gert ráð fyrir 162 milljóna framlagi til að fylgja því eftir, með því að styrkja starfsemi ráðuneyta og sendiráðs í Brussel.

Þá eru viðskiptaþjónusta og menningartengd verkefni umtalsverður hluti af starfsemi sendiskrifstofa okkar í samstarfi við Íslandsstofu. Meginmarkmið með samstarfi um öryggis- og varnarmál er að vinna að friði og öryggi í alþjóða- og svæðisbundnu samstarfi og tryggja varnir landsins með samstarfsríkjum. Gert er ráð fyrir að 13% af fjárheimildum til utanríkismála verði varið til þess málaflokks. Framlög aukast um ríflega 286 millj. kr. á milli ára og fer aukningin að mestu í að bæta uppsafnaða viðhaldsþörf og endurnýjun varnarmannvirkja á Íslandi.

Um 17% fjárframlaga er varið til borgaraþjónustu og hefðbundinna utanríkismála. Mikilvægi borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins hefur vaxið undanfarin ár með auknum fjölda Íslendinga erlendis. Nú búa yfir 40.000 Íslendingar víðs vegar um heiminn og þeir sem búa hér á landi fara í yfir 500.000 ferðir til útlanda á ári. Þessar tölur undirstrika vaxandi umfang þessarar þjónustu. Verkefnin eru margvísleg, allt frá því að útvega neyðarvegabréf í það að skipuleggja umfangsmiklar aðgerðir vegna neyðarástands erlendis. Þessum verkefnum gæti okkar fámenna utanríkisþjónusta ekki sinnt án sjálfboðavinnu um 230 kjörræðismanna um allan heim.

Þjónusta við erlenda ferðamenn er einnig vaxandi þáttur í utanríkisþjónustunni, m.a. útgáfa vegabréfsáritana til landsins. Mikil og hröð fjölgun ferðamanna til landsins gerir það að verkum að við getum ekki lengur reitt okkur á afgreiðslu grannríkja okkar við afgreiðslu vegabréfsáritana í sama mæli og áður. Við þurfum því að axla aukna ábyrgð á því verkefni í samræmi við skuldbindingar okkar í Schengen-samstarfinu. Ekki er þó gert ráð fyrir áhrifum á afkomu ríkissjóðs þar sem auknar tekjur af áritunargjöldum renna í ríkissjóð og vega upp á móti auknum útgjöldum til að mæta auknu umfangi vegabréfsáritana sem nema 160 millj. kr. samkvæmt fjárlagafrumvarpinu.

Til utanríkismála verjum við í allt rétt ríflega 1,8% af heildarútgjöldum ríkissjóðs. Þrátt fyrir að umsvif málefnisins hafi aukist á öllum sviðum undanfarin ár hefur þetta hlutfall lækkað lítillega á milli ára. Þessum árangri hefur verið náð með umtalsverðri hagræðingu og bættri nýtingu fjármuna.

Virðulegi forseti. Mikilvægi utanríkismála á eftir að vaxa á næstu misserum. Við stöndum ávallt frammi fyrir nýjum áskorunum í utanríkismálum. Á næsta ári förum við með formennsku í Norðurskautsráðinu, Norrænu ráðherranefndinni og leiðum samstarf utanríkisráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna sem og innan Alþjóðabankans. Við þetta bætist seta Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna en þar er mikilvægur vettvangur til að tala fyrir grunngildum okkar. Þá standa íslensk stjórnvöld nú frammi fyrir því brýna verkefni að tryggja greiðan aðgang íslenskra fyrirtækja að breskum mörkuðum eftir útgöngu Breta úr ESB. Verkefnin eru því ærin og er mikilvægt að haldist góð samstaða um megináherslur Íslands í utanríkismálum.