149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:57]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætla að koma inn á tvennt. Ég ætla að byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ágætisyfirferð. Það er ánægjulegt að við deilum skoðun um að bæta þarf viðveru okkar og efla hagsmuni þegar kemur að EES-samningnum og gott að það sjáist aukin fjárframlög til þess.

Það kemur hins vegar á óvart í því samhengi að ekki eigi að taka fyrir þriðja orkupakkann á þingi fyrr en í febrúar á næsta ári. Þótt það tengist ekki beint fjárlögum langar mig að spyrja hæstv. ráðherra, sem er vel inni í þeim málum, hvaða áhrif það geti haft á EES-samninginn og samskipti Íslands við önnur EES-lönd ef við innleiðum hann ekki og hvaða efnahagslegu áhrif það geti haft fyrir þjóðina.

Að öðru leyti vil ég spyrja ráðherra um framlög Íslands til þróunarsamvinnu. Þau eru hluti af alþjóðlegum skuldbindingum okkar til að ráðast gegn fátækt og mér finnst ríkisstjórnin vera fullmetnaðarlítil. Vissulega vex krónutalan með auknum þjóðartekjum en hækkun á framlaginu er þó langt frá því sem við getum verið fullsæmd af. Áform eru um að þau verði 0,35% í lok fimm ára fjármálaáætlunar. Samkvæmt núverandi þingsályktunartillögu áttu þau að vera 0,4% 2016 og við erum langt frá 0,7% markmiði Sameinuðu þjóðanna.

Það er líka algjörlega ólíðandi að hátt í 40% af þeim fjármunum sem talað er um að fari til þróunarsamvinnu skuli vera vegna innanlandsaðstoðar. Mig langar að vita hvort ráðherra sé sammála mér í því og hvort hann hyggist beita sér fyrir því, vegna þess að ekkert er talað um það í kaflanum um utanríkismál.

Einnig spyr ég ráðherra að lokum hvort honum hefði ekki þótt ánægjulegra að kynna þetta núna þar sem við miðuðum við þingsályktunartillöguna frá 2013.