149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:59]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilegt innlegg. Það er gott að við erum sammála um að efla hagsmunagæslu varðandi EES. Þetta er eitt af því sem ég hef lagt sérstaka áherslu á og fór strax í þegar ég settist í stól utanríkisráðherra því að við getum haft áhrif á fyrstu stigum. Því miður var það fyrirkomulag sem við vorum með í Brussel veikt mjög þegar við fórum í aðildarviðræður við ESB og var ekki sett aftur á fyrr en núna, með því að við setjum 160 milljónir í hagsmunagæslu. Það þýðir að við verðum með fulltrúa allra ráðuneyta í Brussel þegar því er lokið.

Varðandi þriðja orkupakkann ræðum við þau mál við annað tækifæri. Þau mál eiga ekki alveg við hér en eru þó nokkuð sem við þurfum að ræða gaumgæfilega sem og EES-samninginn. Ég held að við séum búin að gleyma mörgu því góða sem sá samningur hefur veitt okkur og tökum því ýmsu sem sjálfsögðum hlut. En ég get ekki farið yfir það í stuttu andsvari.

Varðandi framlög til þróunarmála met ég efst, í það minnsta hlutfallslega, að fáir útgjaldaliðir hafa hækkað jafn mikið á undanförnum og framlög til þróunarmála. Við erum að tala um að frá 2013–2017 er hækkunin 3.000 milljónir á ári. Ef við ætlum að ná 0,7% hækkuninni eru það 19 milljarðar, sem er náttúrlega þó nokkuð meira en öll framlögin sem við erum með núna til utanríkismála.

Ég er þeirrar skoðunar að sígandi lukka sé almennt góð og skynsamlegt sé, sérstaklega þegar við förum í aukningu núna og á það legg ég áherslu, að við vöndum mjög vel til verka varðandi hvernig við nýtum þá fjármuni. Þetta eru fjármunir almennings og mikilvægt að við gerum þetta vel. Ég legg áherslu á að við eigum umræðu í þinginu og að þingið veiti ráðuneytinu og stjórnvöldum aðhald þegar kemur að því.

En við erum með gríðarlega hækkun. Við skulum ekki tala hana niður.