149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta yfirferð. Það sem vekur athygli mína í þessu fjárlagafrumvarpi sem kemur að utanríkisþjónustunni er að það er töluverð útþensla á þjónustunni, það er verið að auka verulega í. Samkvæmt fylgiriti því sem fylgir fjárlagafrumvarpinu er m.a. verið að auka um 135 milljónir í aðalskrifstofu, sendiráðin fá 481 milljón, varnarmál 286 milljónir, alþjóðleg þróunarsamvinna 422 og Uppbyggingasjóður EES 290 milljónir. Það má með sanni segja að undir forystu núverandi utanríkisráðherra sé þjónustan að fá aukna fjármuni og þenjast út sem ég held að sé ekki vanþörf á, en það er hins vegar ákveðinn nýr tónn sem hæstv. ráðherra er að slá frá því að hann var þingmaður. Þá kvað við svolítið annan tón þegar kom að utanríkisþjónustunni. Þetta er allt spurning um áherslur. Hvaða línur er verið að leggja í þjónustunni?

Mig langar hins vegar að spyrja hér nokkurra spurninga. Það kemur fram að það eigi að lækka útgjöld um 78 millj. kr. á móti hækkunum. Hvaðan verða þeir fjármunir teknir? Síðan eru það framlög til þróunarsamvinnu, þau virðast vera að aukast sem er áhugavert í ljósi þess sem áður hefur verið sagt af hálfu þingmannsins hér í þessum sal og annars staðar. Er þetta raunveruleg hækkun á framlögum vegna þjóðartekna? Eða eru þetta einhverjar reikningskúnstir? Er einfaldlega verið að reikna meira inn í alþjóðlegu þróunarsamvinnuna en áður hefur verið gert? Eða er raunverulega verið að bæta í?

Mig langar líka að spyrja út í fjármuni sem lagðir eru til vegna framboðs til stjórnarsetu í UNESCO. Ég hef miklar spurningar og set stórt spurningarmerki við þetta framboð. Ég hefði haldið að við ættum frekar að bjóða okkur fram og okkar aðstoð á staði eða í samninga eða stofnanir þar sem við erum sterk fyrir í rauninni eins og eyðimerkursamningurinn svo eitthvað sé talað um eða jarðhiti o.s.frv. Mig langar að fá að vita hvert heildarframlag Íslands verður til þessa framboðs til UNESCO.

Síðan langar mig að spyrja um Uppbyggingasjóð EES. Árið 2015 sagði hv. þingmaður, með leyfi forseta,

„Við erum með tvenns konar framlög, annars vegar til þeirra landa sem kölluð eru þróunarríki og síðan setjum við gríðarlega fjármuni í þróunaraðstoð til ESB. Ég hef beitt mér fyrir því og ég vona að hv. stjórnarandstaða styðji mig og okkur í því að þeir fjármunir (Forseti hringir.) verði veittir til þeirra sem þurfa meira á því að halda.“

(Forseti hringir.) Ætlar hæstv. ráðherra þá að beita sér fyrir því að þeir fjármunir sem fara til þróunarsjóðs EES fari núna í alþjóðlega þróunarsamvinnu eins og hann talaði um árið 2015?