149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Það er enginn annar tónn hjá þeim sem hér stendur frá því að hann var þingmaður. Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér hagræðingartillögur ríkisstjórnarinnar sem ég og Vigdís Hauksdóttir og Ásmundur Einar Daðason og Unnur Brá Konráðsdóttir komum með á sínum tíma. Ég hvet hann til að skoða kaflann um utanríkismál. (Gripið fram í.) Það er nákvæmlega það sem ég er að gera, hv. þingmaður. Hvenær áður hefur sendiráði verið lokað í góðæri? Hvenær áður hefur það verið gert? Það er búið að loka tveimur. Við fórum nákvæmlega yfir það hvar þörfin var mest. Við lokuðum þar sem við þurftum ekki að hafa sendiráð. Við tókumst á í þingsal, hv. þingmaður, og annars staðar um að þeir fjármunir sem voru komnir aukalega í utanríkisþjónustuna færu í að opna sendiskrifstofu í Strassborg. Það gerði ég ekki. Ég nýtti þá … (Gripið fram í.) Ég er að tala, hv. þingmaður, þú kemst að á eftir. Ég nýtti þá fjármuni í hagsmunagæslu okkar, bæði varðandi Brexit og sömuleiðis það sem snýr að EES-samningnum. Það er augljóslega ekki vanþörf á. Það nýtist að vísu ekki utanríkisþjónustunni beint, heldur er verið að fjármagna fulltrúa sem eru úr viðkomandi ráðuneytum sem hafa ekki verið þar lengur vegna þess að því miður var ekki búið að setja aftur fjármuni í það, ekki forgangsraða fjármunum í það að gæta hagsmuna okkar hvað varðar EES.

Varðandi Íslandsstofu, virðulegur forseti, er það nákvæmlega í samræmi við það sem var rætt í hagræðingartölum þess hóps sem ég vísaði hér sérstaklega til. Það eru engar breyttar áherslur hvað þetta varðar. Við skulum bara fara lið fyrir lið í aukninguna.

Við erum að setja 50 milljónir í norðurslóðasamstarfið af því að við erum að taka við formennsku. Við erum að setja 48 milljónir í Norrænu ráðherranefndina vegna þess að við erum að taka við formennsku. Ég er búinn að fara í gegnum EES-samninginn. Það fara 160 milljónir í vegabréfsáritanirnar sem við fáum inn, það kemur bara ekki í reikninga utanríkisráðuneytisins heldur reikninga fjármálaráðuneytisins. Ég get farið, virðulegur forseti, áfram (Forseti hringir.) í gegnum þetta og það er bara sjálfsagt og er mér gleði og ánægja.