149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:11]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir yfirferð hans um fjármál ráðuneytisins. Eins og komið hefur fram eru miklar hækkanir á milli ára, eða um 1,7 milljarðar kr. Það má eiginlega segja að fjárlagafrumvarpið hvað þetta varðar beri þess glöggt merki að vinstri menn ráði þarna ríkjum. Þetta er þeirra helsta áhugamál að þenja út ríkisbáknið og Sjálfstæðisflokkurinn tekur nú þátt í veislunni.

Ég hélt satt best að segja að hæstv. utanríkisráðherra væri ekki talsmaður þess að þenja ríkisbáknið svona út. Ég veit ekki betur en að þegar hann var heilbrigðisráðherra og síðan varaformaður fjárlaganefndar hafi hann verið sérstakur vinur niðurskurðarhnífsins svo eftir var tekið og talsmaður sparnaðar.

Aðeins til að fá skemmtilegt tilsvar frá hæstv. ráðherra um mál sem varðar kannski ekki beint ráðuneytið væri gaman að vita hvort hann væri enn þeirra skoðunar að leggja ætti niður Bankasýslu ríkisins, en hún fær nú 60 milljónir í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2019.

Það sem ég vildi spyrja hæstv. ráðherra út í er þessi hækkun til sendiráðanna og þá sérstaklega er nefnd í frumvarpinu hækkun til sendiráðsins á Indlandi. Kannski tengist það vegabréfsáritunum og aukinni starfsemi hvað það varðar og væntanlega því að til stendur að eitt af íslensku millilandaflugfélögunum hyggst fljúga til Indlands, en mér skilst að þau áform séu einhvers staðar í hálfgerðu uppnámi. Spurningin er því hvort þörf sé fyrir þetta.

Síðan minntist hæstv. ráðherra á þessa formennsku í ráðherranefndinni og Norðurskautsráðinu, 50 milljónir og aftur 50 milljónir, 100 milljónir. Ég vil bara spyrja ráðherra: Er ekki hægt að nýta starfskrafta ráðuneytisins (Forseti hringir.) eitthvað betur hvað þetta varðar, t.d. sendiherra sem eru brátt að komast á eftirlaun (Forseti hringir.) til að starfa að þessu með þeim hætti að ekki þurfi kannski (Forseti hringir.) þessi miklu útgjöld þegar við tökum að okkur svona formennsku?