149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:13]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður getur verið alveg viss um það að ég var, er og verð talsmaður þess að fara vel með opinbert fé. Það verður gert í þessu fjárlagafrumvarpi, sérstaklega varðandi það sem snýr að utanríkismálunum. Hv. þingmaður verður auðvitað að fara rétt með staðreyndir þegar við förum að tala hérna um hækkun, og hann vísar til formennsku, hann hefur áttað sig á því að um formennsku er að ræða. Ég tel það að vísu vera til fyrirmyndar og ætti að vera það almennt í ríkisrekstrinum að við erum að skilgreina hvað við erum að gera nákvæmlega. Ég get alveg fullvissað hv. þingmann um að þeir starfskraftar sem eru þar inni eru auðvitað nýttir. Eitt af því sem ég gerði til að skerpa á því sem kemur í tillögum um utanríkisþjónustu til framtíðar er að setja sérstaklega deild heimasendiherra til þess að nýta starfskrafta þessara einstaklinga sem hann vísaði sérstaklega til. Þegar formennsku er lokið — þetta hefur eðlilega kostnað í för með sér, það er ráðstefnukostnaður, ferðakostnaður og ýmislegt annað fyrir utan það að kalla þarf til sérfræðiaðstoð í mörgum tilfellum. Ef við tökum bara norðurslóðasamstarfið hefur verið eftir því tekið á þessum mikilvæga tíma hvernig okkur tekst til þar. Það er búið að setja 50 milljónir á ári í þetta gríðarlega mikilvæga verkefni þar sem horft er til okkar úti um allan heim, þar held ég að enginn geti haldið fram að menn séu eitthvað að spenna bogann of hátt þegar kemur að fjármunum. Ég hvet hv. þingmann til að bera saman hvað aðrar þjóðir leggja í slíkt.

Ég vek athygli á því að þeir peningar sem eru settir í vegabréfaskoðanirnar koma til baka. Þess sér ekki bara stað í utanríkisráðuneytinu. Þær tekjur koma inn í fjármálaráðuneytið. Ég held að enginn sé á móti því að við setjum kraft í vegabréfsáritanir og við vonumst til þess að þeim flugfélögum okkar sem starfa í þessu gangi vel og standi styrkum fótum og haldi (Forseti hringir.) áfram að koma með ferðamenn til landsins því að það er nokkuð sem við lifum á. Þess vegna (Forseti hringir.) hefur hagvöxturinn verið hér uppi eins og við þekkjum.