149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:18]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega til í að ræða varnarmálin og önnur mál, það er ekki nema sjálfsagt. Við erum í Atlantshafsbandalaginu, höfum ákveðna sérstöðu þar, þannig að það sem við höfum tekið þátt í snýr eðlilega að beinum þáttum eins og ratsjárkerfinu okkar og ýmsum viðhaldsverkefnum sem eru á Keflavíkurflugvelli, svo dæmi sé tekið. Síðan tökum við þátt í borgaralegum verkefnum á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og er sómi að. Við erum stolt af því að vera í Atlantshafsbandalaginu. Sem betur fer höfum við verið þar. Það er bara hluti af þjóðaröryggisstefnu okkar. Ég held að enginn geti haldið því fram með neinni sanngirni að það sem við leggjum fram í þennan málaflokk — þó að erfitt sé að bera saman framlög okkar til varnarmála við önnur lönd vegna þess að við erum ekki með her og verðum ekki með her. Það er ýmislegt sem heyrir undir varnarmál í öðrum löndum sem ekki heyrir undir varnarmál hjá okkur. Engu að síður tökum við þátt í þessu eins og aðrar Atlantshafsbandalagsþjóðir og eftir því er tekið hvað við gerum. Það er vel.

Varðandi hvort og hvernig bera eigi saman fjárframlög til þróunarmála á milli landa verð ég að viðurkenna að mér finnst það vera svolítið aukaatriði. Aðalatriði málsins hlýtur náttúrlega að vera hvað við leggjum fram til málanna og hvernig við gerum það. Þess vegna verðum við að geta borið saman framlög okkar við önnur ríki með réttum hætti. Ég geri engan ágreining um það, mér finnst ekkert óeðlilegt við að þetta sé lagt fram með þessum hætti eins og aðrar þjóðir gera, bara alls ekki. Mér finnst það ekki vera aðalatriðið. Við hljótum að tala um hvað við leggjum fram og hvernig það nýtist. Ég hef lýst því yfir áður í þessum stól í dag og hef gert það oftar að ég er (Forseti hringir.) mjög fús til þess að ræða þessi mál bæði við þing og þjóð.