149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:23]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Þetta var svolítil súpa af spurningum. Ég ætla að reyna að fara yfir eitthvað af því eins og ég kemst yfir.

EES-samningurinn er mjög góður að mörgu leyti, en sérstaklega að því leytinu til að við erum ekki læst í tollabandalagi Evrópusambandsins. Það væri náttúrlega alveg gríðarlegur skaði fyrir okkur ef við værum þar inni. Þetta þýðir að við getum samið við þá sem við viljum. EFTA-ríkin voru fyrst einungis að reyna að vera með samninga við sömu lönd og ESB, en síðan hafa þau stigið önnur skref. Við höfum síðan gert samninga við Kína og Færeyjar, eins og hv. þingmaður vísar til. Eitt EFTA-ríkið, Sviss, hefur gert samning við Japan þannig að við þurfum ekki að gera það á vettvangi EFTA nema tekin sé sérstök ákvörðun um það. Við erum virkir þátttakendur í Alþjóðaviðskiptastofnuninni og höfum gert hvað við getum og munum halda áfram að standa vörð um það umhverfi. Við hvetjum EFTA og leggjum framlag okkar til EFTA til þess að við gerum meira en minna og leggjum harðar að okkur þegar kemur að fríverslunarsamningum. Það er okkar helsti vettvangur.

Varðandi Brexit þekkir hv. þingmaður, sem situr í utanríkismálanefnd, hvaða sviðsmynd við höfum dregið upp þar. Það er ekki alveg í okkar höndum hvernig það er. Við höfum verið í samskiptum við ekki bara bresk yfirvöld heldur einnig Evrópusambandið og EFTA-ríkin þannig að við erum að reyna að búa okkur undir allar þær aðstæður sem komið geta upp. Viðbrögð breskra stjórnvalda hafa verið mjög jákvæð, en það er engin ástæða til þess að fagna fyrr en niðurstaða er komin. Hvort það verður með EFTA-ríkjunum, EES-ríkjunum eða þeim sem eru fyrir utan ESB, í EES eða tvíhliða á bara eftir að koma í ljós. Við erum ekki stödd á þeim tímapunkti að við getum talað um það.

Varðandi kostnaðinn þá fórum við í heildarendurskoðun og stefnumótun á utanríkisþjónustunni. Þar reynum við að forgangsraða, t.d. að nýta meira staðarráðna starfsmenn. Við höfum verið að loka sendiráðum og skipa viðskiptafulltrúa þar sem þeir voru ekki, á fjarlægum mörkuðum. Ef við ætlum að halda uppi góðum lífskjörum hér verðum við að semja á fleiri mörkuðum en er gert núna. (Forseti hringir.) Það liggur fyrir. Meðal annars þess vegna var ég í Kína.