149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hennar innlegg. Við stöndum okkur ekki verr í mannréttindamálum en það að þess var farið á leit við okkur að við tækjum sæti Bandaríkjamanna þegar það losnaði, eins og menn þekkja, í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Þetta er nú ekki verra en það. (ÞSÆ: Ég er bara að spyrja um stefnu.) Bara svo menn haldi alveg línu hvað það varðar, þetta er ekki verra en það. Þess var farið á leit við okkur og það var víðtækur stuðningur í Vesturlandahópunum á bak við okkur að fara þangað inn. Við höfum farið yfir það hvernig við ætlum að vinna þessi mál í hv. utanríkismálanefnd og ég sé ekki nein misvísandi skilaboð þegar við gerum fríverslunarsamninga, sem við erum að gera og höfum gert í mjög langan tíma, við lönd sem uppfylla ekki þau skilyrði sem við viljum sjá í mannréttindamálum. Það hefur verið niðurstaða á íslenskri utanríkispólitík fram til þessa, og ég held að flestir séu sammála þar, að það eru meiri líkur á því að við sjáum betri og bætt mannréttindi í viðkomandi löndum þegar meiri viðskipti verða. Það er t.d. grundvöllurinn fyrir fríverslunarsamningum við Kína svo dæmi sé tekið og kom fram í áliti hv. utanríkismálanefndar á þeim tíma.

Hv. þingmaður nefndi sendiráðið í Strassborg. Ég fór aðeins yfir það áðan að við erum að taka fyrir í hvert skipti þegar eitthvert sérstakt verkefni kemur upp því að hv. þingmaður nefnir réttilega að við erum að taka við formennsku þar. Þá þurfum við að nálgast það sérstaklega. Ég held að það sé óskynsamlegt að nálgast þetta með öðrum þeim hætti að þegar við tökum ákveðið verkefni að okkur setjum við fjármuni í það, þegar því verkefni er lokið hættum við því. Ef allur ríkisreksturinn væri byggður upp með þeim hætti væri aðhaldið og sparnaðurinn mun meiri.

Þegar kemur að því að taka við formennsku í Strassborg munum við auðvitað leggja okkur öll fram við að láta það gerast. Það mun líka kalla á einhverja fjármuni og forgangsröðun innan utanríkisþjónustunnar (Forseti hringir.) en svarið varðandi mannréttindamálin almennt, stefnuna, samráðið og slíkt, er að það er eitt af þessu sem við erum að vinna að og munum halda áfram að vinna að eins og kemur fram í fjárlagafrumvarpinu.