149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:39]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ég er aðeins að jafna mig, ég man ekki eftir að hv. þingmaður hafi hrósað mér svona mikið, en ég reyni að jafna mig hratt og vel af því að ég hef svo stuttan tíma.

Við erum að tala um EES-samninginn og eitt af því fyrsta sem ég gerði þegar ég kom í ráðuneytið var að setja af stað vinnu til að koma með tillögur um það hvernig við gætum gætt hagsmuna okkar betur hvað varðar samninginn. Því miður var það kerfi sem við vorum með, eins og við höfum farið í gegnum, tekið að stórum hluta niður þegar við vorum í aðlögunarviðræðunum og ekki sett upp aftur og við erum að stórum hluta að taka það upp aftur.

En þetta snýr í rauninni ekki aðeins að utanríkisráðuneytinu heldur líka að öðrum ráðuneytum og það er gert ráð fyrir því í þessum tillögum. Aukningin núna upp á 160 milljónir gengur út á að við erum að fjármagna fulltrúa úr fagráðuneytunum þannig að það verða fulltrúar allra fagráðuneyta í Brussel til þess að fylgjast með þeim málaflokkum þar sem þetta gæti tengst hagsmunum Íslands.

Þegar kemur að herferðinni sem hv. þingmaður vísar til, og er að vísu líka í tillögunum, verður að vanda vel til verka. Í mínum huga snýst þetta um að reyna að leggja staðreyndir á borðið og þetta má ekki verða neins konar trúboð. Eitt af því sem við heyrðum frá Norðmönnum var að ekki er alveg sama hvernig er farið að. Ég held að það sé gríðarlega mikið atriði að við tökum umræðu um EES-samninginn því að við höfum haft fjórðung úr öld og erum búin að gleyma ýmsum kosti sem fylgja honum, við ræðum þá a.m.k. ekki mikið, gerðum það bara þegar við fundum fyrir því.

Ég held að það sé mikill styrkur að fá ekki bara Björn Bjarnason í þessa skýrslu heldur líka Kristrúnu Heimisdóttur og Bergþóru Halldórsdóttur. Björn Bjarnason stýrði skýrslu sem kom út 2007 um EES-samninginn. Í þeirri nefnd voru Össur Skarphéðinsson og Katrín Jakobsdóttir og fleiri öflugir einstaklingar. Það var mjög góð skýrsla sem menn hefðu betur framfylgt betur og þeim tillögum sem þar voru. (Forseti hringir.) Hann þekkir þessi mál fram og til baka og mikill kostur að fá hann og hina tvo nefndarmennina í þetta starf en þau þurfa að kalla til miklu fleiri (Forseti hringir.) því að þótt þetta sé öflugt fólk mun það ekki klára þetta sjálft.