149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að vera skammaður úr báðum áttum, meðaltalið er þá bara prýðilegt. Ég þakka hv. þingmanni fyrir það sem hún fór yfir. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að við þurfum að ræða ýmis mál. Öryggis- og varnarmál eru t.d. nokkuð sem við verðum að ræða. Ég held að það sé mjög mikilvægt að vera meðvitaður um það hversu mikið hefur breyst í þessu á örfáum árum. Hin aukna áhersla Norðurlandanna, sem ég hef sömuleiðis lagt áherslu á á þessu sviði, er nokkuð sem ég held að hafi aldrei gerst áður. Samstarf Norðurlandanna í öryggis- og varnarmálum er alltaf að þéttast og það á bæði við um löndin sem eru í NATO og fyrir utan. Svíþjóð og Finnland eru í mjög þéttu samstarfi, hafa mjög mikinn áhuga á því og reyndar eru þau nánustu samstarfsríki Atlantshafsbandalagsins. Ég tel að þetta sé góð þróun, það er að vísu ekki góð þróun að við þurfum að ræða öryggis- og varnarmál jafn mikið og mögulegt er en ég held að sé góð þróun að Norðurlöndin vinni þétt saman. Það er styrkur fyrir okkur öll.

Varðandi Strassborg liggur alveg fyrir að þegar við tökum að okkur verkefni eins og formennsku þar munum við leggja meira í það, alveg eins og ég fór yfir áðan. Ég held að það sé gott að í staðinn fyrir að við setjum eitthvað af stað — síðan hætta menn ekki við það og stundum reyna menn að breyta því með einhverjum hætti — tökum við einhver verkefni að okkur, setjum fjármagn í þau í tvö, þrjú, fjögur ár, reynum að gera það með eins hagkvæmum hætti og hægt er og síðan er það verkefni búið og við tökum annað verkefni að okkur sem við leggjum alveg sérstaklega áherslu á að gera sömuleiðis vel.

Ég er ekki með listann frá 2007 og segi: Mig vantar þetta af því að þetta var 2007. Ég nálgast það ekki þannig. Ég nálgast það svona: Hvernig eru hagsmunir okkar best tryggðir? Ef við værum að byrja með autt blað, hvernig utanríkisþjónustu myndum við búa til? Við eigum ekki að miða þetta við það sem var einhvern tímann bara af því bara. Við eigum að gera það vegna þess að við erum að gæta hagsmuna okkar Íslendinga á mörgum sviðum og við eigum að gera þetta með eins hagkvæmum og góðum hætti (Forseti hringir.) og mögulegt er. Þess vegna er ég sammála hv. þingmanni um margt og er ekkert að segja að hv. þingmaður vilji fara þangað. (Forseti hringir.) Ég segi bara að ég nálgast þetta ekki þannig að menn hafi náð fullkomnun (Forseti hringir.) 2007 og að við þurfum að komast þangað aftur. Ég held að það sé ekki nálgunin.