149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:52]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir það tækifæri að fá að stikla á stóru í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár og vík eðli málsins samkvæmt sérstaklega að þeim málefnasviðum sem undir dómsmálaráðuneytið heyra. Þau eru í raun þrjú. Það er málefnasvið sem er töluliður 2 í fjárlagafrumvarpinu sem varðar dómstólana og það er töluliður 9 í fjárlagafrumvarpinu sem er málefnasvið almanna- og réttaröryggis og það er málefnasvið 10 sem varðar réttindi einstaklinga og trúmál.

Heildarútgjöld málefnasviðanna þriggja eru áætluð 47,7 milljarðar kr. í fjárlagafrumvarpinu og aukast um tæpa 5,2 milljarða kr. sem er um 12,2% hækkun. Ég vil nefna að í þessum útgjaldatölum eru tveir liðir sem heyra undir málefnasvið dómsmálaráðuneytisins en eru þó á verksviði forsætisráðuneytisins, það er óbyggðanefnd og ríkislögmaður, en í krónum talið er það kannski óverulegur hluti heildarfjárhæðarinnar.

Ég vil þá gera stuttlega grein fyrir þessum þremur málefnasviðum og víkja fyrst að dómstólunum. Til dómstólanna er gert ráð fyrir að verði varið 3,2 milljörðum kr., það er 70 millj. kr. hækkun frá yfirstandandi ári, um 2,2%. Ef við horfum til raunbreytinga á framlögum í einstaka málaflokkum málefnasviðsins munar þarna mest um 39 millj. kr. lækkun framlags til Hæstaréttar. Það er vegna fækkunar um eitt stöðugildi hæstaréttardómara og um eitt stöðugildi aðstoðarmanns. Þetta er í samræmi við áhrif vegna breytinga sem gerðar voru á lögum um dómstóla.

Það er svo sem lítið um dómstólasviðið í rauninni að fjalla. Það hafa auðvitað orðið miklar breytingar, eins og menn þekkja, á dómskerfinu hér á landi með stofnun Landsréttar og dómstólasýslunnar en ég hef miklar væntingar um að dómstólasýslan láti til sín taka við að efla stjórnsýslu dómstólanna og mér hefur virst Landsréttur hafa farið vel af stað og allt saman í samræmi við fjármálaáætlun.

Þá vil ég víkja næst að málefnasviðinu sem heitir almanna- og réttaröryggi. Til þess verður varið á næsta ári 29 milljörðum kr. og gott betur, tæpum 30 milljörðum kr., og það er 4,8 milljarða hækkun, 19% hækkun. Helstu raunbreytingum framlaganna má skipta í rauninni í fernt. Það er í fyrsta lagi framlag til Landhelgisgæslunnar, þar af 1.900 millj. kr. sem varið er til útborgunar í kaupum á þremur nýjum þyrlum. Í öðru lagi er 1.300 millj. kr. framlag til löggæslunnar og þar af er rúmlega 800 milljónum varið til fjármögnunar aðgerðaáætlunar vegna framkvæmdar við landamæravörslu og samþætta landamærastjórnun. 410 milljónir til að bregðast við auknu álagi á löggæsluna vegna fjölgunar ferðamanna, svo ég stikli nú á stóru á þeim skamma tíma sem ég hef. Í þriðja lagi er verulegum fjárhæðum, 100 millj. kr., ætlað að fara til fullnustumála til að tryggja full afköst fangelsanna hér á landi, sérstaklega fangelsinu á Hólmsheiði sem hefur ekki verið í fullri notkun en stefnir í það núna undir lok þessa árs. Í fjórða og síðasta lagi gerir frumvarpið ráð fyrir 62 millj. kr. framlagi til ákæruvaldsins og réttarvörslu til að styrkja peningaþvættisskrifstofu héraðssaksóknara. Það er gert til að mæta athugasemdum alþjóðlegrar peningaþvættisúttektar sem hefur verið gerð hér á Íslandi.

Ég vil þá víkja örstutt að málefnasviðinu um réttindi einstaklinga og trúmál. Undir það heyrir líka stjórnsýsla dómsmálaráðuneytisins. Í þetta málefnasvið er áætlað að fari 14,5 milljarðar, það er 306 millj. kr. hækkun, 2,1% hækkun. [Kliður í þingsal.] Þarna munar kannski mest um 77 millj. kr. framlag til Persónuverndar til að mæta innleiðingu nýrra laga eins og þingheimur þekkir. Á móti lækka framlög til kosninga. Við höfum væntingar til þess að það verði ekki kosningar á næsta ári þannig að þetta er hækkun til Persónuverndar.

Nú sé ég að tíminn er eiginlega úti, en ég vil nefna það sérstaklega að það standa yfir samningaviðræður við þjóðkirkjuna sem sér núna vonandi loksins fyrir endann á. Varðandi útlendingamálin virðist okkur að það áhlaup sem dundi hérna á Útlendingastofnun sé í einhverri rénun en gert er ráð fyrir lítils háttar aukningu til þessa málaflokks. (Forseti hringir.) Annars hlakka ég til að taka þátt í umræðunni hér um málefnasvið dómsmálaráðuneytisins.