149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:58]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kem hingað upp til að ræða þá grunnstoð samfélagsins sem hæstv. dómsmálaráðherra fer með, nefnilega löggæsluna. Fjárheimild málaflokksins hækkar um tæplega 1.150 millj. kr., sem er dágóð fjárhæð, og það er nauðsynleg til að efla löggæslu í landinu sem hefur fengið að drabbast hættulega mikið niður á vakt Sjálfstæðisflokksins þrátt fyrir ítrekuð aðvörunarorð lögreglustjóra landsins, ríkislögreglustjóra og formanns Landssambands lögreglumanna.

Áætluð fjárþörf til að hægt sé að hafa hér lágmarksmönnun í löggæslu landsins eru 3 milljarðar kr. Þegar sást glitta í þessar tölur, rúmlega 1 milljarð kr., var ekki laust við að vonarneisti hafi kviknað í brjósti þingmannsins. Er loksins verið að efla löggæsluna? Á loksins að tryggja lágmarksmönnun hjá lögreglunni? Víða um land eru tómar lögreglustöðvar, enginn á vakt, einn sofandi lögreglumaður með símann á náttborðinu, þrír lögreglumenn gæta 60.000 borgara á höfuðborgarsvæðinu og þar fram eftir götunum. Má sjá þess merki í fjárlögum að hæstv. ráðherrar dómsmála og fjármála séu loksins að svara neyðarkalli sem borist hefur frá lögreglu um árabil?

Nei, frú forseti. Þegar fjárlög eru rýnd kemur í ljós að af þessum rúmlega 1.100 milljónum, sem verið er að bæta við í málaflokkinn, eru rétt um 850 að fara í landamæravörslu og þar af 230 í búnað. Ekkert er fjallað um fjölgun í almennri löggæslu. Ég vil því spyrja hæstv. dómsmálaráðherra: Hefur hún virkilega engar áhyggjur af undirmönnun í lögreglunni, í hinni almennu löggæslu?