149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:23]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Við eyrnamerktum sérstaklega fjármagn í þetta, eins og hæstv. ráðherra benti á, í yfirstandandi fjárlögum. Ég sakna þess að sjá það ekki gert áfram, sérstaklega í ljósi þess að við vitum að þörfin er til staðar og við erum vonandi, eins og ráðherrann segir, að ljúka fljótlega við þessa aðgerðaáætlun. Ég hefði viljað sjá því gerð betri skil en hér er gert.

Ég get ekki látið hjá líða að spyrja líka um sýslumennina sem ég hef talað töluvert mikið um hér; löggæslan fær gjarnan meira vægi og kannski er það eðli málsins samkvæmt. Sýslumenn fá ekki mikla hækkun hér á milli ára, einungis verðlagshækkanir, sýnist mér a.m.k. að mestu. Einhverjir þeirra hafa verið í húsnæði sem hefur verið þeim mjög íþyngjandi, það hefur jafnvel staðið ónotað að stórum hluta og lítið gagnast. Ég minnist enn og aftur á verkefnin sem aldrei hafa verið flutt yfir, sem átti að gera þegar þetta var aðgreint. Það er eitt af því sem ég hefði viljað sjá að ríkisstjórnin beitti sér fyrir, þ.e. að styrkja sýslumannsembættin enn frekar. Ég veit að reynt var að eiga við það fyrir ekki svo löngu. Ég talaði við þáverandi innanríkisráðherra sem hreinlega óskaði liðsinnis, þó að ég væri þá í stjórnarandstöðu, varðandi önnur ráðuneyti sem ekki voru tilbúin að láta af hendi störf til að styðja við sýslumenn.

Mig langar til að spyrja, í framhaldi af hinu, hvort til standi að styrkja embættin og hvort húsnæðismál sumra sýslumanna séu enn á sama stað, þ.e. þar sem húsnæði er íþyngjandi og lítið notað.