149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:25]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég verð að fá að nota tækifærið og leiðrétta mig; ég nefndi 80 millj. kr. framlag til rannsókna á skipulagðri glæpastarfsemi hér á höfuðborgarsvæðinu en það kemur fyrst inn árið 2019, svo því sé haldið til haga, og verður áfram. En lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur hins vegar fengið verulega aukningu fjárheimilda; 180 milljónir mun hún líka fá vegna fjölgunar ferðamanna.

Sýslumennirnir, það er rétt — við erum enn að skoða starfsemi þeirra embætta eftir að við skiptum upp, eftir að löggæslan var skilin frá sýslumönnum. Sýslumennirnir standa núna einir með sín verkefni. Ég hef lagt á það áherslu og brýnt allt Stjórnarráðið til að skoða hjá sér hvort ekki megi færa til einhver verkefni, fela sýslumönnum frekari verkefni. Sýslumenn eru í eðli sínu handhafar framkvæmdarvaldsins úti í héruðum og stjórnvöld geta fengið góða þjónustu hjá þeim með mjög hagkvæmum hætti og skilvirkum til gagns fyrir borgarana, enda er það markmiðið fyrst og fremst.

Hækkun til þeirra hefur verið frá 3,5% upp í 9,5% og mest hér á höfuðborgarsvæðinu, enda umsvifin mest þar enn sem komið er. Þetta eru kannski ekki háar fjárhæðir enda eru sýslumannsembættin ekki fjárfrekar stofnanir í krónum talið. Þeim fylgdu við uppskiptinguna miklir halar sem voru klipptir af en þeir halar virðast einhvern veginn vera skringilegar skepnur, virðast alltaf vaxa aftur og aftur á. Sýslumenn hafa verið mjög viljugir og virðingarvert að þeir hafa náð að hagræða eins og þeir geta í rekstri sínum. Það er alveg ljóst að það mun eitthvað þurfa að halda áfram. Húsnæðið er óhentugt. Ég þekki húsnæðið á Austurlandi sem þarf að skoða. Við erum að skoða það mjög gaumgæfilega með Fasteignum ríkisins að koma því (Forseti hringir.) húsnæði í ásættanlegra horf, bæði ódýrara og skilvirkara húsnæði, hagkvæmara og þægilegra fyrir sýslumenn og löggæslu líka.