149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:27]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég ætlaði að ræða löggæslumál við hæstv. ráðherra en mér heyrist sú umræða vera komin ansi langt þannig að ég læt það eiga sig í bili þótt ég eigi mögulega tvær mjög sértækar spurningar í pokahorninu sem ég skil eftir þangað til seinna.

Mig langar að byrja á því að ræða við hæstv. ráðherra um fyrirætlun sína um að setja á fót sérstaka mannréttindastofnun, sjálfstæða mannréttindastofnun sem hefur m.a. það hlutverk, eins og kemur fram í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar, að veita stjórnvöldum ráðgjöf í mannréttindamálum, stuðla að því að löggjöf og stjórnsýsla sé í samræmi við mannréttindasamninga og fjalla um ástand mannréttindasáttmála í landinu.

Fram kemur í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar að til standi að leggja fram frumvarp þess efnis í febrúar. Ég vil því gjarnan spyrja hæstv. ráðherra hvort einhverjir fjármunir liggi fyrir til að standa að því. Ég finn ekki neinn stað í fjárlögunum þar sem fram kemur að leggja eigi peninga í það. Ég tel að bara undirbúningsvinnan við að setja á fót slíka stofnun muni kosta peninga. Ég velti því fyrir mér hvort búið sé að gera ráð fyrir fjármunum í það. Ef við tökum fyrir frumvarp um það í febrúar, hvenær er áætlað að slík stofnun geti farið af stað og er gert ráð fyrir einhvers konar fjármunum í þeim efnum?

Þessar mjög svo sértæku spurningar sem mig langaði að spyrja, og ég spyr einfaldlega fyrir forvitni sakir fyrst að ég hef ráðherra hér, snúast um að ég sé að það eiga að fara 86 milljónir í lífkennaupplýsingakerfi fyrir lögregluna. Ég spyr mig hvað það sé nákvæmlega. Svo veit ég líka að sex starfsmenn lögreglunnar eða landamæragæslumenn eiga að sjá um samkeyrslu og mynstursgreiningu á farþegum og spyr aftur: Hvað er það? (Forseti hringir.) Hverju er verið að leita að og hvaða þörf er verið að uppfylla með því?