149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:32]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég geri þá ráð fyrir því að hvergi sé gert ráð fyrir sérstökum peningum í þetta og að ekki sé búið að pæla neitt í því. Ég bæti við að mögulega er það ekki frábært að dómsmálaráðherra sé ánægð með núverandi aðhaldsstofnun, en ég set það til hliðar.

Sjálfstæð aðhaldsstofnun eða sjálfstæð mannréttindastofnun ætti náttúrlega að hafa nægilegt fjármagn og nægileg umráð mannafla til að geta sinnt virku aðhaldshlutverki og þurfa einmitt ekki að hafa áhyggjur af því hvort hún fái nóg fjármagn frá dómsmálaráðuneytinu þetta árið eða ekki fyrir vinnu sína.

Ég fékk ekki svar við þeim sértæku spurningum sem ég spurði áðan en ég læt það vera að ítreka þær og sný mér frekar að öðru.

Mig langar að spyrja út í útlendingamál. Ég sé í fjárlagafrumvarpinu að til stendur að draga fjárheimild málaflokksins saman um 39 millj. kr. til að uppfylla aðhaldskröfu. Þetta er ekki sérstaklega mikið en breytir því þó ekki að um samdrátt er að ræða. Samt sem áður kemur fram í fjárlögunum að mikil óvissa sé um fjölda umsókna. Á bls. 267 kemur fram, með leyfi forseta:

„Sveiflum í málaflokknum, bæði hvað varðar fjölda og eðli mála, fylgir tilheyrandi ófyrirsjáanleiki varðandi kostnað. Með hraðari málsmeðferð má lækka kostnað við þjónustu.“

Nú liggur alls ekki fyrir hvernig þetta verður. Hæstv. ráðherra hefur verið frekar dugleg að þrengja að því sem yfirvöld í þeim málaflokki hafa kallað tilhæfulausar umsóknir, m.a. með þeim rökum að með því að þrengja að getu þeirra til að teppa kerfið, eins og oft var sagt, verði hlúð betur að þeim sem hafi hér raunverulegar og virkilega réttlætanlegar umsóknir.

Ég spyr: Hvernig rímar þetta saman, (Forseti hringir.) að draga saman í útlendingamálum, þrengja að þeim umsóknum sem eiga að heita að séu ekki (Forseti hringir.) réttmætar, ef rökin voru alltaf að með því að þrengja að málaflokknum ætti að vera hægt (Forseti hringir.) að hlúa betur að hinum? Af hverju drögum við þá ekki saman í þessum málaflokki?