149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:37]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og greinargóða yfirferð. Hér hefur löggæslumál borið á góma. Þau hafa gert það undanfarið í fjölmiðlum og verða sjálfsagt alltaf til umræðu, eðlilega. Það ber svolítinn keim af því að fullyrðingar fljúgi á milli í umræðunni, og ekki bara nú heldur oft áður. Það á við um fjölmörg önnur málefnasvið sem við fjöllum um í fjárlagafrumvarpi.

Ég ætla að koma aðeins inn á það í þessari umræðu að mikilvægt er þegar við skoðum þróun fjárveitinga og þróun ársverka að við séum að tala um sama hlutinn þegar við fjöllum um þessa þætti. Þá er ekki síður mikilvægt að við séum að taka sama tímabil. Þá erum við auðvitað farin að sjá það að á fjölmörgum málefnasviðum, ef við tökum tímabilið frá 2010 til 2018 og svo frumvarpið sem við horfum á hér, varð breyting, t.d. á skipan lögregluembætta 2015, sama ár og við samþykktum lög um opinber fjármál þar sem við breyttum framsetningu á málaflokkum og málefnasviðum. Þetta verður allt að hafa í huga. Þess vegna þarf að hafa svolítið fyrir því að taka gögnin á sama form þannig að við séum að ræða sama hlutinn þegar við fullyrðum það hvernig þetta hefur þróast.

Þess utan fór hæstv. ráðherra ágætlega yfir þann breytta heim sem orðið hefur á þessum árum, um harðari fíkniefnaheim og aukið álag í löggæslu almennt, þess vegna skipulagða glæpastarfsemi o.s.frv.

Ég ætla að koma (Forseti hringir.) í seinna andsvari að spurningunni, hæstv. ráðherra.