149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:49]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég er spurð að því hvort ég sé ánægð með löggæsluna á Íslandi. Já, ég er ánægð með löggæsluna á Íslandi. Ég hjó líka eftir könnun sem Gallup gerði á alþjóðavettvangi, alþjóðlega könnun sem Gallup gerði um viðhorf til löggæslumála úti um allan heim, hvaða land er öruggast. Ísland lenti í 3. sæti í þeirri könnun á eftir Singapúr sem var í 1. sæti og Noregi í 2. sæti. Tel ég það gefa ákveðna vísbendingu um stöðu íslenskrar löggæslu í alþjóðasamanburði. Ég held að við ættum að vera ánægð með það. Ég tek hins vegar undir áhyggjur hv. þingmanns um stöðu löggæslumála á landsbyggðinni þar sem það er rétt að þar eru lögreglumenn oft einir á ferð og þurfa að fara um langan veg.

Ég heimsótti lögregluna á Suðurlandi fyrir skemmstu og kynnti mér aðstæður, það er náttúrlega víðfeðmasta lögreglusvæðið á landinu. Það er auðvitað ekki boðlegt að menn séu einir að keyra og bregðast við slysum og atburðum, eins og menn þurfa stundum að gera þar. Þar hefur þó orðið veruleg fjölgun á menntuðum lögreglumönnum frá árinu 2014. 31 lögreglumaður var þar 2014 en núna eru þeir 45, held ég, eða 49, hátt í 50. Menn mega ekki tala eins og ekkert sé að gert eða tala niður lögregluna. Það hefur mikið verið gert. Lögreglan á allt það hrós skilið sem hún fær frá almenningi og langoftast stjórnmálamönnum líka. En við þurfum auðvitað að standa vörð um hana og það verður gert.

Ég nefni aftur sem ég sagði áðan, menn verða líka að vera sanngjarnir í því þegar talað er um löggæsluna og skilgreiningu á því hvað lögreglan er. Hvernig er löggæslan? Hún er orðin miklu umfangsmeiri, og almenningur gerir kröfu um það, en að það séu bara lögreglumenn á bílum eða lögreglumenn úti á vegum. Löggæslumál eru orðin miklu flóknari en svo að allt leysist með því að fjölga lögreglumönnum.