149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:51]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra svörin. Eins og allir vita hefur undanfarna mánuði og ár verið urgur í lögreglunni út af stöðu lögreglunnar. Það hefur ekki farið fram hjá neinum. Menn hafa fullyrt að lögreglumönnum fari fækkandi, lögreglubifreiðum fari fækkandi. Akstur lögreglubifreiða hefur dregist saman. Einhvers staðar sá ég að á tíu ára tímabili hafi akstur þeirra dregist saman um 40% og lögreglubifreiðum fækkað um 20%. Það þarf auðvitað að ræða við þessar stéttir og hagsmunaaðila í lögreglunni út af þessu ástandi, hefja samtal, reyna að ná sátt. Þess vegna spyr ég ráðherra: Hefur hæstv. ráðherra rætt við fulltrúa lögreglumanna, þ.e. stjórn Landssambands lögreglumanna, á fundi, rætt stöðu lögreglunnar og hvernig hún blasir við lögreglumönnum?

Ég tek undir þau orð hæstv. ráðherra að þessi umræða um lögregluna geti skaðað hana. Það viljum við ekki. Samdráttur í löggæslu undanfarin ár hefur valdið því að lögreglumenn eru undir miklu álagi, líka í síbreytilegum heimi með flóknari afbrotum o.s.frv. Þá spyr ég ráðherra: Hefur hæstv. ráðherra einhver áform um að styðja við bakið á lögreglumönnum, líkt og nýleg dæmi eru um frá Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, og tryggja þeim viðunandi stuðningsúrræði til að sporna við kulnun í starfi vegna álags?

Ég ætla einnig að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig gengur vinna við gerð löggæsluáætlunar? Við höfum beðið eftir henni í ansi mörg ár, ég hugsa að það séu að nálgast tíu ár síðan boðað var að hún kæmi fljótlega. Ég ætlaði að spyrja um sýslumennina, það hafa fleiri gert, og ýmislegt annað.