149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:13]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Guðjóni Brjánssyni um mikilvægi þess að fjárveitingum sé forgangsraðað í þágu barna og ungmenna. Við stígum skref í átt til þess í frumvarpinu, eins og ég sagði áðan. Við erum með nýjar 80 milljónir á næsta ári til opnunar á sérstöku úrræði á höfuðborgarsvæðinu. Við aukum um 150 millj. kr. til uppbyggingar á sérstökum búsetuúrræðum fyrir börn með alvarlegar þroska- og geðraskanir. Það eru einnig 200 millj. kr. í frumvarpinu til að styrkja stöðu barna almennt. Þetta er því hátt í hálfur milljarður sem kemur nýr á milli ára umfram það sem þegar er.

Ég fundaði með Barnaverndarstofu síðast í síðustu viku til að fá upplýsingar um hver staðan væri á meðferðarúrræðum og öðru því sem sneri að þeim málum. Ég veit ekki annað en að þar sé verið að leggja lokahönd á vinnu við að opna úrræðið sem ég nefndi áðan. Það hefur tekið langan tíma og fyrir það hef ég svarað. Ég harma það og finnst það skelfilegt en hef fullvissu fyrir því frá Barnaverndarstofu að eins og staðan er núna er laust í fleiri úrræði þannig að þeir gera ekki ráð fyrir því að úrræðið sem á að opna fljótlega verði fullnýtt á næstu dögum.

Ég get því alveg sagt að þetta fær mjög mikinn forgang í ráðuneytinu og hjá ríkisstjórninni og það kemur fram í fjárlagafrumvarpinu. Hins vegar þurfum við að ráðast í miklu róttækari stefnubreytingar varðandi velferðarkerfið í heild þegar kemur að börnum. Sú vinna hefur verið sett af stað af stjórnvöldum og af ráðuneytinu og í gang er að fara þverpólitísk nefnd sem á einmitt að skoða hvernig við getum umbylt velferðarkerfinu þannig að börnin séu alltaf í fyrsta sæti. Ég held að það þurfi enn lengri umræðu.

Varðandi örorkulífeyrisþega og málefni fatlaðs fólks og NPA verð ég að fá að svara því í seinna andsvari.