149. löggjafarþing — 4. fundur,  14. sept. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:23]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir þessa hvatningu. Núverandi ríkisstjórn hefur þegar hækkað frítekjumark upp í 100.000 kr. Ég kannast við þá tillögu sem hv. þingmaður vitnar hér til. Ég vil þó segja tvennt um þetta: Í fyrsta lagi hefur það verið gefið út, sá sem hér stendur hefur gert það og forsætisráðherra líka, að við erum að vinna í því sem snýr að örorkulífeyrisþegum, aukningu í þeim efnum og innleiðingu á nýju kerfi. Eins og hv. þingmaður veit sjálfur var það ekki klárað í þeirri nefnd sem hann veitti forystu á sínum tíma og tók við af Pétri Blöndal. Við ætlum okkur að klára þá vinnu og ég hef sagt það og að því ætlum við að einbeita okkur núna.

Við erum hins vegar jafnframt í samtali og samstarfi við Landssamband eldri borgara um hvernig við getum komið til móts við þá hópa innan eldri borgara sem lægstar hafa tekjurnar og bágust hafa kjörin. Sú vinna er í gangi, það samtal er í gangi og þeirri vinnu er ekki lokið. En ég segi þó líka við hv. þingmann, sem tilheyrir Miðflokknum, að Miðflokkurinn hefur verið mjög gagnrýninn á fjárlagafrumvarpið vegna þess að það sé mikil útgjaldaþensla í því.

Ég fór yfir hvernig fjárveitingar munu aukist til þess málaflokks sem ég stend fyrir, þær munu aukast að raunaukningu um 8–9% á næsta ári. Ég fagna því auðvitað ef Miðflokkurinn er hættur að berjast gegn aukningu til félagslegra málefna, samanber það hvernig formaðurinn talaði hér í fyrradag, og er kominn til liðs við okkur hin. Ég tel, rétt eins og hv. þingmaður segir, að við þurfum að veita meira fé í félagslega kerfið, en það gerist ekki með innantómum frösum og upphrópunum, vegna þess að við verðum samhliða því að skoða kerfisbreytingar og tryggja að þær fjárveitingar sem við setjum inn í kerfið nýtist raunverulega fyrir þá sem minnstar hafa tekjurnar og þurfa á því að halda.